132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:08]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir þessu, hv. þm. Birkir Jón Jónsson hélt svipaða ræðu áðan um alla þá hálaunamenn og allt það unga fólk sem er með háu launin og fær það mikið út úr skattkerfinu að það fær engar barnabætur og engar vaxtabætur vegna hárra launa. Þá vil ég benda hv. þingmanni á að það er ekki allt ungt fólk og ungar barnafjölskyldur með há laun eða í þessum hálaunahópi. Ég vil benda honum á að við höfum látið reikna út dæmi að hálaunahjón með um 960 þús. kr. tekjur á mánuði fá um 66 þús. kr. í skattalækkun á mánuði eða tæplega 800 þús. á ári miðað við skattkerfisbreytingar eða skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. En í fjölmennasta hópi millitekjuhjóna fær fólk rúmlega helmingi lægri upphæð en þetta og er langfjölmennasti hópurinn.

Virðulegi forseti. Stefna Samfylkingarinnar í þessum efnum er alveg skýr, hún var það í fyrra. Við lögðum til að matarskatturinn yrði lækkaður í stað þess að lækka tekjuskattinn um 1% vegna þess að það kæmi öllum til góða, öllum jafnt. Hv. þingmaður hlýtur að vita og hafa reiknað það út að flöt tekjuskattslækkun þýðir að þeir sem hafa mest fá mest í vasann, þetta er ekki flókin reikningskúnst. Þetta er því alveg klárlega stefna okkar og var okkar stefna, við lögðum hana fram í fyrra, að við vildum lækka matarskattinn til þess að barnafjölskyldur fengju lægra matarverð og þannig kæmi það öllum til góða, ekki bara unga fólkinu með háu launin, sem er ekki í meiri hluta í samfélaginu.