132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:19]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað sagði ég ekkert um það hvort bætur gætu breyst, hækkað eða lækkað. Það getur alltaf verið þannig. En ég sagði að eitt ráðuneyti kemst aldrei upp með að neita að svara hagræðingarkröfunni og að ætla að breyta einhverjum bótum til að nota peningana í það, það er fjarstæða og bull. Svo geta bæturnar breyst, ég var ekkert að segja um það.

En nú höfum við fengið að heyra þetta, virðulegi forseti, hvernig á að bregðast við aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum og hættu á miklu ójafnvægi. Breyta í Stjórnarráðinu, þá lagast þetta. Þannig að það má svona með herkjunni fiska upp eitt og eitt svona, það má fiska upp tillögur um það hvernig eigi að gera þetta. (Gripið fram í.) En litlu munaði, segir nú sagan að músin hafi sagt, litlu munaði, þegar hún meig í sjóinn. En þetta er þó viðleitni að hagræða þá aðeins og fækka ráðherrum. Það er aldrei að vita nema það sé gott og ég fagna því og ég get kannski stutt það. En ég er hræddur um það að menn sem ætla að tala í alvöru um efnahagsmálin og þá stöðu sem atvinnulífið er í þurfi að taka sig aðeins á og koma með aðeins skýrari hugmyndir um hvernig hægt sé nálgast þann stóra vanda, sem ég veit að er, og hugsa málið í heild sinni. Það er ágætt að krukka eitthvað í Stjórnarráðið, ég er ekkert á móti því. Menn verða að gera það, stjórnarandstaðan verður að gera það, hún kemst ekkert upp með það að vera í umræðum við okkur heilan dag og það kemur ekki ein einasta meining um það hvernig þau vilji standa að þessu.