132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér var auglýst eftir hugmyndum og tillögum frá stjórnarandstöðunni. Hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, sagðist sakna þess að frá stjórnarandstöðunni kæmu engar tillögur fram. Hér eru tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.“ Ítarlega og vel unnið plagg sem við höfum gert grein fyrir í fjölmiðlum á undanförnum vikum og dögum og munum síðan taka til umfjöllunar í þinginu fljótlega.

Á tíu mínútum er aðeins unnt að stikla á stóru. Um almennar áherslur og stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vísa ég til framsöguræðu hv. þingmanns Jóns Bjarnasonar sem talaði fyrstur úr okkar hópi við þessa umræðu og ég vil gera hans orð og hans áherslur að mínum. Ég ætla að víkja í örstuttu máli að fjórum meginsviðum, stórum og smáum, að öryrkjum, að dvalarheimilum aldraðra, að sölu Landssímans og að lokum fara almennum orðum um þá stefnu sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu að þessu sinni.

Ég sagði að ég ætlaði að víkja að stórum og smáum málum. Hvað eru stór mál og hvað eru smá mál? Metum við stærð mála eftir krónutölu eða pólitískum ásetningi? Hvernig sem á málin er litið er aðförin sem boðuð er að kjörum öryrkja stórmál. Og þó að erfitt væri að ráða í orð hv. þingmanns Einars Odds Kristjánssonar, varaformanns fjárlaganefndar, hér áðan þá eru skilaboðin frá Öryrkjabandalagi Íslands mjög skýr.

Í yfirlýsingu sem kom frá bandalaginu fyrir fáeinum dögum segir, með leyfi forseta:

„Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár kemur fram að heilbrigðisráðherra muni leggja fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um að uppbót á elli- og örorkulífeyri vegna reksturs bifreiðar, oft nefnd bensínstyrkur, verði felld niður frá og með 1. janúar næstkomandi. Styrkurinn er áætlaður um 720 millj. kr. Lagt verður til að þessum fjármunum verði varið til hækkunar á tekjutryggingarauka hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, um 393 milljónir, 100 milljónir verði millifærðar til að efla starfsendurhæfingu sjúkratrygginga og 226 milljónir verði skornar niður til að mæta hagræðingarkröfu, eins og það er orðað í greinargerð frumvarpsins. Hér er um beina ávísun á kjararýrnun fjölda hreyfihamlaðra að ræða.

Einnig er gert ráð fyrir að útgjöld vegna laga um félagslega aðstoð lækki um 226 millj. kr., óhjákvæmilega bein ávísun á kjararýrnun fjölda öryrkja.“

Tilvitnun lýkur í yfirlýsingu frá Öryrkjabandalagi Íslands.

Hér er um að ræða háar fjárhæðir þar sem að hluta til er um millifærslu að ræða og að hluta til um beina kjaraskerðingu að ræða. Ég lít á þetta sem stórmál sem við eigum eftir að takast á um í haust áður en fjárlögin verða afgreidd.

Annað atriði sem ég ætlaði að víkja að varðar dvalarheimili aldraðra. Hæstv. fjármálaráðherra var spurður um þetta efni og skýringu á því að einkarekið dvalarheimili fái hlutfallslega meira fjármagn en sjálfseignarstofnanir eða stofnanir sem eru reknar beint á vegum hins opinbera. Hann svaraði á þá lund að ástæðan væri hærri fjárfestingarkostnaður. Ég tel að hér sé um misskilning að ræða. Ég tel þetta vera rangt.

Ríkisendurskoðun telur þetta líka rangt vegna þess að fjárfestingarkostnaðurinn hjá hinum stofnununum er, ef eitthvað er, hærri en hjá hinum einkarekna aðila sem fær húsnæðiskostnaðinn að fullu greiddan úr ríkissjóði, ekki hinir. Ástæðan fyrir því að gjöldin eða framlagið frá ríkinu er hærra er samkvæmt niðurstöðu Ríkisendurskoðunar sú að eigendur hins einkarekna heimilis hljóti að krefjast arðs, að þar sé komin skýringin á hærra framlagi.

Í þriðja lagi ætlaði ég að víkja sölu Símans, að einu litlu atriði þar. Hv. þingmaður Bjarni Benediktsson sagði áðan að hugsunin að baki einkavæðingu og sölu Símans væri sú að ríkið losaði fjármagn út viðjum ríkisreksturs og færði yfir í önnur uppbyggileg verkefni. Þetta er ákveðin hugsun sem við höfum oft heyrt, að taka peninga úr þjónustufyrirtækinu Símanum og færa annað, til að mynda í hátæknisjúkrahús. Þetta er ágæt hugsun. En það er einn grundvallarmunur á þessum tveimur stofnunum. Hann er sá að fyrrnefnda stofnunin, Síminn, gefur okkur skattborgurunum, okkur sem eigum ríkissjóð, arð. Hann færir okkur fjármuni en sjúkrahúsið veldur einvörðungu kostnaði. Á þessu er að sjálfsögðu grundvallarmunur.

Nú kemur að fjórða atriðinu sem ég vildi nefna. Hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson fór orðum um fjárlagafrumvarpið, fór með okkur í ferðalag yfir á síðu 264 þar sem segir frá tekjum og kostnaði. Hann benti réttilega á að samkvæmt frumvarpinu er dregið úr fjárfestingum. Hann spurði í framhaldinu: Þeir sem vilja lægri útgjöld ríkisins verða að gera grein fyrir því hvar þeir vilji skera niður. Hann benti einnig réttilega á að útgjöld ríkisins væru fyrst og fremst rekstrarkostnaður. Vissulega er hægt að hagræða víða, t.d. í utanríkisþjónustu og í ýmsum framkvæmdum, en fyrst og fremst er um rekstrarkostnað að ræða. Hann sagði: Við erum öll ábyrg fyrir því hvert stefnir. Nei, það er rangt.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð varaði við þeirri stefnu sem tekin var í kjölfar síðustu kosninga. Vinstri hreyfingin, einn flokka, varaði við skattalækkunum, ekki aðeins vegna þess að það væri óheppilegt á þessum þenslutímum, það mundi valda frekari þenslu heldur og vegna þess að við mundum þegar fram liðu stundir lenda í vandræðum með rekstur hins opinbera. Ríkisstjórnin mun skera niður á milli 20 og 30 milljarða kr., skerða tekjur ríkisins um á milli 20 og 30 milljarða kr., þegar skattalækkanirnar verða komnar til framkvæmda. Menn segja: Já, en er ekki allt í lukkunnar velstandi? Núna er afgangur. Já, það er afgangur, eftir að Landssíminn er seldur. Hann er aðeins seldur einu sinni. Og ef við lítum á þá tekjuaukningu sem er að finna í þessu frumvarpi frá því sem áður hafði verið ætlað þá er um tímabundnar tekjur að ræða.

Það kemur fram í fylgigagni með frumvarpinu. Hér segir, með leyfi forseta:

„Tekjur ríkissjóðs hafa aukist verulega vegna aukinna umsvifa í efnahagslífinu og aukinnar neyslu. Af einstökum tekjuliðum er áætlað að eftirtaldir skattar muni skila ríkissjóði rúmlega 20 milljarða krónum meiri tekjum en áætlað var í fjárlögum; tekjuskattur einstaklinga 5,5 milljörðum, stimpilgjald 4,4 milljörðum, virðisaukaskattur 7 milljörðum og vörugjöld af ökutækjum um 3,3 milljörðum króna. Þá er fjármagnstekjuskattur greiddur af ríkissjóði um 6,3 milljörðum meiri en áætlun fjárlaga, sem skýrist aðallega af sölu Landssímans, og arðgreiðslur um 4,3 milljörðum króna meiri vegna sérstakrar arðgreiðslu frá Landssímanum.“

Allt er þetta tímabundið. Þetta eru tímabundnir þenslu- og einkavæðingarskattar, ágóði af einkavæðingu. Við þessu höfum við varað og það er rangt að gera okkur samábyrg í þeirri stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir og aðrir flokkar, (Forseti hringir.) allir aðrir en Vinstri hreyfingin – grænt framboð, boðuðu fyrir síðustu kosningar. Ég mun (Forseti hringir.) gera nánar grein fyrir öðrum þáttum í síðari ræðu minni.