132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. heilbrigðisráðherra um að hann hyggist fara í viðræður við Öryrkjabandalagið um þessar breytingar. Betra hefði verið að það hefði verið gert áður því að þá hefði mátt forðast þessi mistök. Ég vil bara kalla þennan tillöguflutning það sem hann er, mistök.

Ég minni hæstv. ráðherra á að meginreglur Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra kveða á um þá skyldu stjórnvalda að hafa samráð við samtök fatlaðra áður en gripið er til aðgerða gegn þeim. Það hefði verið farsælla í vinnslu þessa máls að gera svo.

Það að afnema bifreiðastyrk til hreyfihamlaðra er einfaldlega vond hugmynd. Ég held að það hafi ekki verið hægt að ráða annað af ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra en að hann viti að svo er. Ég trúi því tæpast að hér sé þingmeirihluti fyrir því að grípa til þeirra aðgerða. Ég held að ég láti ógert að fara yfir þau rök sem til þessarar skoðunar minnar standa, ég held að það sé Alþingi farsælast og best og hæstv. heilbrigðisráðherra og hreyfihömluðum líka, að við þurfum aldrei aftur að ræða þessa hugmynd heldur vinni ráðherra með Öryrkjabandalaginu að því að komast að þeirri niðurstöðu að hætta við þessa breytingu enda held ég að hún hafi mætt andstöðu hvarvetna í þjóðfélaginu, hjá háum sem lágum og fólki úr öllum flokkum. Við gætum, þegar fram líða stundir, bara skrifað þetta á reikning mistaka í ráðuneytinu.