132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:06]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég láti ellilífeyrisþegum sjálfum eftir að svara hæstv. fjármálaráðherra um þróun kjara þeirra. Þeir vitna sennilega best um það, enda sá eldurinn heitastur er á sjálfum brennur. En ég fullvissa hæstv. ráðherra um að fullyrðingar mínar um að ellilífeyrisþegar hafi dregist aftur úr almennri kjaraþróun í landinu eiga svo sannarlega við rök að styðjast.

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjármálaráðherra að ætla að hafna því hér að skattkerfinu hafi á síðustu árum í tíð þessarar ríkisstjórnar verið beitt skipulega til þess að auka tekjulega misskiptingu í landinu. Það blasir einfaldlega við. Ég og hæstv. fjármálaráðherra þurfum að borga mánaðarlaunum minna í skatta þegar þetta er um garð gengið en við þurftum að gera áður, en nefndir ellilífeyrisþegar þurfa að borga mánaðarlaunum meira og það munar um minna. Það hryggir mig að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki einu sinni gangast við sínum eigin stjórnarathöfnum að þessu leyti.

Ég vil líka nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji það ekki óviðeigandi að þær tvær stofnanir sem eiga að fara með hagstjórnina, fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn, skuli vera ósammála í grundvallaratriðum um stöðu efnahagsmála, spá með gerólíkum hætti fyrir um þensluna hér á næsta ári. Og er það ekki óviðunandi að fjármálaráðuneytið sé búið að ákveða að hér verði föst 4% verðbólga um margra ára skeið en Seðlabankanum er á sama tíma sett að stefna að 2,5% verðbólgu og halda henni þar? Telur hæstv. fjármálaráðherra ekki nauðsynlegt að Seðlabankinn og ríkisstjórnin noti sama landakortið (Forseti hringir.) í þeim leiðangri að reyna að halda tökum á efnahagsmálefnum í landinu?