132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:08]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að við eigum ekki að þurfa að deila hér um staðreyndir, við getum bara fengið þær á blaði í tölum. Þegar hann talar um að einhverjir borgi meiri skatta og aðrir borgi minni skatta þá eru það væntanlega þeir sem hafa meiri tekjur en þeir höfðu áður sem borga meiri skatta. Það felst einfaldlega í því.

Varðandi það hvort fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn geti verið ósammála þá held ég að engin leið sé að koma í veg fyrir þann möguleika. Það er talað um að við séum með sjálfstæðan seðlabanka, og eins og margoft hefur verið farið yfir í dag er nú einfaldlega þannig komið með hagfræðina eins og fleiri fræðigreinar, eins og fiskifræðina sem ég veit mætavel, að þar geta menn haft mismunandi skoðanir og mismunandi sjónarmið, komist að mismunandi niðurstöðum og beitt mismunandi aðferðum og það er ekki hægt að segja að annar hafi rétt fyrir sér eða hinn hafi rangt fyrir sér.

Hins vegar verða menn að hafa það í huga þegar verið er að bera saman spár, annars vegar Seðlabankans og hins vegar fjármálaráðuneytisins, að spá Seðlabankans er gerð áður en hann grípur til sinna aðgerða en spá fjármálaráðuneytisins tekur tillit til þeirra aðgerða sem Seðlabankinn hefur gripið til. Ef það kemur upp úr kortunum að fjármálaráðuneytinu sýnist verðbólguþróunin verða eitthvað tiltekið verður fjármálaráðuneytið auðvitað að segja eins og er en horfa ekki á markmiðin sem Seðlabankanum eru sett bara vegna þess að honum hafa verið sett þau markmið.

Síðan er kannski líka ágætt, ef menn hafa áhyggjur af því að menn séu ósammála, að bera saman við greiningardeildirnar. Þá fáum við enn þá meiri breidd í spárnar um það hvernig málin muni þróast á næstu missirum og árum.