132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:13]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er fullkomlega meðvitaður um að pólitíkin snýst um það hvernig menn vilja deila ríkidæminu og hvaða aðferðir menn telja vænlegastar til þess að hægt sé að auka það. Þar greinir mig og hv. þingmann einfaldlega á alveg eins og í stóriðjunni. Það er út af fyrir sig ekkert ljótt við það og hvorugum okkar til vansa að það komi fram í umræðunni og ekki hægt að ætlast til að við verðum sammála um það.

Hins vegar sýna tölulegar staðreyndir að jafnvel með þeirri útfærslu á því að menn hafi það betra sem hv. þingmaður nefndi — það heitir reyndar kaupmáttur — jafnvel á þeim mælikvarða hafa allir hópar það betra. Ég var farinn að halda að hv. þingmaður ætlaði svo að fara út í það til viðbótar hvernig menn hefðu það andlega en það er út af fyrir sig kannski ekki að stóru leyti hluti af fjárlagafrumvarpinu þó að það snerti það auðvitað að einhverju leyti líka eins og flest annað í þjóðfélaginu.