132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað eru hrottalegar mótsagnir í málflutningi ríkisstjórnar sem í öðru orðinu stærir sig af öllum sínum glæsilega árangri, vitnar í alls konar erlendar mælingar og skýrslur og montar sig af því að við séum í hópi allra ríkustu þjóða heimsins, en svo er í næstu setningu talað um að við höfum ekki efni á því að afsala okkur stóriðjunni jafnvel þó að hún sé að stórskemma náttúru landsins og það sem verra er, fyrir liggi að arðsemi þessara fjárfestinga er hörmulega lítil ef nokkur. Hún ryður öðru út úr atvinnulífinu og efnahagskerfinu um leið og hún kemur þar inn eins og dæmin sanna núna. (Gripið fram í.) Hér er, gleiðbrosandi framan í mig, hv. 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, með gjaldþrot Slippstöðvarinnar á bakinu og 500 uppsagnir í fiskvinnslu á síðastliðnum níu mánuðum. Það eru 500 störf farin út úr íslenska sjávarútveginum í formi uppsagna á ári eða níu mánuðum samkvæmt frétt í blaði í gær.

Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að ég sakna skattteknanna, þ.e. ef undirstaða samábyrgs velferðarkerfis á Íslandi veikist og veikist með endalausum hægri áherslum í skattamálum. Staðreyndin er sú að opinber samneysla á Íslandi er núna mun lægri en á nokkru hinna Norðurlandanna, 40% eða tæplega það. Það er mun lægra hlutfall, (Gripið fram í.) 41–42% í mesta lagi. Það er lægra hlutfall en við sjáum á hinum Norðurlöndunum og reyndar víða annars staðar í Vestur-Evrópu. Veruleikinn er sá, hvað sem menn segja, hversu mikið sem menn sperra hér stél og tala um að fólkið eigi að fá að ráðstafa þessu sjálft, eins og allir hafi eitthvað til að ráðstafa, veruleikinn er ósköp einfaldur: Við rekum ekki norrænt, samábyrgt velferðarkerfi á Íslandi með amerískum skatthlutföllum. Það gerum við bara ekki. Valið stendur um hvers konar þjóðfélagsgerð við viljum. Viljum við áfram tilheyra Norðurlöndunum með öflugu öryggisneti og samábyrgri velferðarþjónustu eða ætlum við að ameríkanísera þjóðfélagið (Forseti hringir.) enn frekar en búið er að gera?