132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra flúði í það að tala um að hér væri ekki atvinnuleysi þegar hann hafði greinilega engin rök til að svara öðru sem hér var tekið upp.

Auðvitað er gott að hér sé ekki atvinnuleysi. Það hefur mjög lengi verið aðall okkar á Íslandi að við höfum náð að hafa full verkefni fyrir okkar að vísu fámennu þjóð. Við erum fámenn þjóð í stóru landi með mikla möguleika þannig að það er auðvitað margt sem hefur hjálpað okkur og lagst með okkur í því. Við höfum verið að byggja mjög mikið upp okkar þjóðfélag, sem er líka gott, og á slíkum skeiðum í sögu þjóðar er það gjarnan svo að það er auðveldara að halda uppi fullri atvinnu. Sumir mundu jafnvel segja að það væri stundum meira en nóg af því góða. Hluti af ójafnvæginu sem við glímum við núna er auðvitað spennan á ákveðnum sviðum vinnumarkaðarins. Hér eru þúsundir erlendra farandverkamanna sem við eigum eftir að sjá hvernig til tekst með og mætti búa betur að eins og raun ber vitni. Það er líka tengt því að við erum ung að það er vöxtur í þjóðfélaginu. Fólki fjölgar og það kallar á uppbyggingu þannig að allt er þetta hvað öðru tengt. Mér finnst því að hæstv. ríkisstjórn ætti ekki að reyna að slá umræðunni út í þessu. Það er enginn ágreiningur um að það er gott að hér sé full atvinna en það hefur jú langlengst af öllum eftirstríðstímanum verið svo hjá okkur, ekki satt? Tel ég þar allar ríkisstjórnir eiga svipaðan hlut að. Hér hafa komið tímabundnar atvinnuleysisveiflur eins og á viðreisnarárunum þegar sjálfstæðismenn sátu í stjórn en það var vegna þess að þjóðarbúið varð fyrir ýmsum áföllum, það varð síldarbrestur og fleira í þeim dúr. Þannig gætum við farið yfir þá sögu.

Mergurinn málsins er að mínu mati sá að hæstv. ríkisstjórn er ekki á nokkurn hátt að horfast af raunsæi í augu við veruleikann, jafnvægisleysið í efnahagsmálunum. Það eru verulegar blikur á lofti varðandi framhaldið og ég spái hæstv. fjármálaráðherra því, þ.e. verði hann svo óheppinn og þjóðin svo óheppin að hann verði áfram í embætti á árinu 2006, (Forseti hringir.) að þá verði ekki eins gaman að koma saman fjárlögum.