132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:45]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni ræddi ég um þá nauðsyn sem ég tel á að menn endurskoði allar hugmyndir sínar um að hafa tvær myntir, þ.e. krónuna og hina verðtryggðu krónu. Ég er sannfærður um að eitt það brýnasta sem við getum gert núna er að endurskoða þetta og hverfa frá verðtryggingunni sem menn voru þó sammála um á sínum tíma að hefði nokkurt gildi. Við þurfum að hverfa frá henni til að tryggja að vextir á Íslandi fari að bíta. Vextir bíta ekki neitt. Seðlabanki Íslands, svo að við höldum áfram umræðunni, hækkar og hækkar stýrivexti. Þeir voru hækkaðir um 0,75% í lok síðasta mánaðar. Hvað gerðist? Ekkert nema það að gengið styrktist. Hafði það áhrif á vexti á Íslandi? Mér er sagt að á skemmstu eða stystu lánunum, 16 mánaða lánunum, hafi það styrkst um 20 punkta um morguninn en það var horfið til baka um hádegið. Það voru áhrifin vegna þess að vextir bíta ekki neitt. Hér er allt verðtryggt. Þessar aðferðir þeirra eru vonlausar. Ég fór yfir það, virðulegi forseti, í byrjun desember á síðasta ári og ég gæti gert það aftur núna.

Við verðum að horfast í augu við, það er rétt sem síðasti ræðumaður sagði um það, að við höfum sett okkur verðbólgumarkmið. Það er rangt sem formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu í gær, að það hafi verið lögbundið verðbólguviðmið. Það er ekkert lögbundið. Mér finnst ástæða til þess að endurskoða þetta viðmið, sérstaklega af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þarf að skoða hvernig mælt er, hver mælingin er. Við vitum hvernig eignaverðbólgan virkar í þessu. Í öðru lagi verðum við að endurskoða á hverjum tíma hvað er raunhæft í þessu sambandi. Við verðum að halda þannig á spöðunum að framleiðslan í landinu hafi svigrúm, geti lifað, veitt atvinnu og haldið þessu uppi. Að því leyti tel ég þetta óraunhæft hjá ríkisstjórninni. Ég hef gagnrýnt það mikið og mjög lengi. Það er ekkert nýtt. Ég tel að hún eigi að endurskoða það. Ég fagna því þegar ég sé í forsendum fjárlaganna að fjármálaráðuneytið geri ráð fyrir því að stýrivextirnir breytist ekki það sem eftir er af þessu ári, verði óbreyttir fram eftir næsta ári og fari svo að lækka.

Ég er hins vegar ekki alveg viss um að að þetta gangi eftir. Ég trúi því ekki að við getum safnað 120 milljörðum kr. í nýjar skuldir á næsta ári. Ég hef hvatt til að menn horfist í augu við þetta, hvatt til að menn reyni að ná mjúkri lendingu. En það hefur í för með sér að sú spá sem liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu, að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 2,7%, fær ekki staðist. Það á að segja við fólk það sem við höldum að sé rétt og ég segi að það fái ekki staðist.

Jafnvel þótt kaupmátturinn vaxi ekkert á næsta ári, þótt að hann rýrni um 1–2% þá teldi ég það engan voða. Íslensk fyrirtæki mundu þegar í stað blómgast á ný. Þó að Íslendingar, eins og allar aðrar þjóðir, verði fyrir því að kaupmáttur vaxi ekki eitt árið eða rýrni kannski um 1–2% eftir að hann hefur vaxið stöðugt í tíu ár, vaxið um rúm 50%, þá er það enginn voði. Ég tel rétt að tala um þetta opinskátt vegna þess að ég trúi því að þetta sé rétt. Hættan er miklu meiri ef við ofkeyrum þetta, ef kemur ofris í gengið og menn missa síðan móðinn. Þá er hætta á að fall gengisins verði miklu meira en efni standa til og það fari neðar en þarf til að ná jafnvægisgengi.

Ég sé ógnina og skora á menn að fara varlega, hætta þessu og horfast í augu við að verðbólgan sem kæmi færi bara í gegn. Það brennur ekki annað í verðbólgu en það sem brunnið getur. Það er fyrst og fremst kaupmáttur sem á sér ekki stoð í forsendum efnahagslífsins. Menn eru tregir til að segja þetta og mönnum finnst þetta kannski ósvífið. Það er hins vegar rétt að tala opinskátt og segja þetta framan í þá, það er miklu betra en að fara aftan að mönnum.

Hins vegar er staðan á Íslandi mjög góð. Það er ástæða til að fara yfir það að ríkissjóður Íslands stendur enn einu sinni best allra ríkissjóða í Evrópu. Það er okkar gæfa, sem við skulum þakka fyrir. Jafnvel þótt svo fari, sem ég held að gerist innan tíðar, að kaupmátturinn minnki og tekjur ríkissjóðs minnki fyrir vikið — ég gæti alveg trúað því og bið menn að búa sig undir það — þá er ríkissjóður Íslands mjög sterkur og getur alveg tekið við því. Það er enginn voði fram undan þó að tekjurnar rýrni um skeið. Það hefur verið búið þannig um hnútana í skattakerfinu að það hvetur til vinnu, hvetur fyrirtækin til að vera á Íslandi og hafa Ísland sem miðstöð hagnaðar síns. Það skiptir okkur öllu máli, að hvetja fyrirtækin til að vera á Íslandi. Það hefur tekist mjög vel. En aðrar þjóðir hafa verið það ógæfusamar að missa fyrirtæki sín úr landi, misst sitt besta fólk úr landi og setið eftir án tekna, hafa kannski háa skattprósentu en engar tekjur. Það hefur gerst víða en það höfum við getað forðast með þeirri skattastefnu sem markvisst hefur verið rekin í meira en tíu ár. Það hefur verið gert vitandi vits hvað við værum að gera. (Gripið fram í: Hvaða stefnu?) Hið sterka lífeyrissjóðakerfi Íslands, sem er einstakt í Evrópu, tryggir enn þá frekar að ríkissjóður Íslands standi traustum fótum. Þetta verðum við að horfast í augu við.

Ég tók það fram í fyrri ræðu minni að ég gæti alveg ímyndað mér það að margir þeir sem gagnrýnt hafa þetta fjárlagafrumvarp hafi rétt fyrir sér að því leyti að aðhald sé ekki nægjanlegt. Ég skal alveg taka undir það. Aðhald er nefnilega aldrei nægjanlegt þegar um ríkisbúskapinn er að ræða. Við getum gert betur og hefðum átt að gera betur. En ég nefndi einnig að það að skera niður ríkisútgjöldin eftir á er allt í lagi ef menn vilja fara í það, ekki skal standa á mér við það verk. Hið raunhæfa er þó að læra af reynslunni, átta sig á því að það var áður en við ákváðum útgjöldin sem menn áttu að standa vaktina og verja ríkissjóð, þ.e. áður en samningar eru undirritaðir, áður en launasamningar eru undirritaðir. Menn fara ekki eftir á og eyðileggja það. Þetta er málið, virðulegur forseti, og við verðum að gera okkur grein fyrir því.

Ég fór yfir það einnig að það hefur sannarlega verið lausung í launamálum á Íslandi. Það er hárrétt. Það liggur fyrir hjá kjararannsóknarnefnd hvar launahækkanirnar hafa orðið. Þar tróna á toppnum íslenskir bankar og peningastofnanir. Enda held ég stundum að þeir telji sig ekki af þessum heimi. Kannski er það rétt hjá þeim, að þeir séu ekki af þessum heimi. Þeir telja sig ekki vera það. Þeir hafa farið mjög óvarlega.

Næstir í röðinni eru íslensk sveitarfélög sem hafa því miður líka farið mjög óvarlega. Ég held að eitt af því sem við getum gagnrýnt í fjármálastjórn ríkisins sé t.d. að við höfum sýnt mikla linku við sveitarfélögin og látið undan kröfum þeirra um tekjur. Þau krefja ríkið um tekjur eftir að þau eru búin að semja óvarlega og óábyrgt um laun.

Í þriðja sæti er ríkið og þar fyrir neðan er hinn almenni markaður, sem hefur dregið vagn ábyrgðarinnar í launamálum. Hinn almenni verkamaður hefur gert minni kröfur og verið ábyrgari allan þennan tíma. Þegar ég segi að komið sé að lokum þess í bili að við getum bætt lífskjörin þá skil ég mætavel að hinum almenna verkamanni sárni. Það er mjög eðlilegt. Þeir hafa verið hinir ábyrgu og það væri ekki skynsöm ríkisstjórn sem skoðaði ekki undir þeim kringumstæðum hvort von væri á dýfu kjararýrnunar og reyndi ekki með öllum ráðum að minnka þann sársauka gagnvart þeim sem lakast standa. Það verður ríkisstjórnin að gera. Ég trúi því að hún muni gera það vegna þess að þetta er í vændum, menn eiga að búa sig undir það.