132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:26]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var þannig að fyrri ræðumaður gerði skuldir dálítið að umræðuefni. Það er ástæða til að taka undir það með honum að skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi er mjög mikil. Hún er meiri en hjá öðrum þjóðum og menn fara víða mjög glannalega. Ég hef ekki dæmi um hvaða eignir standa þar á bak við en það er ástæða til þess að óttast það og hvetja mjög til þess að menn fari af meiri gát en þeir hafa gert. Hins vegar fór hann með skuldir ríkisins og fór þá ekki rétt með.

Skuldir ríkisins í upphafi þessa árs voru einhvers staðar kringum 16–17% af vergri landsframleiðslu. Skuldir ríkisins núna eru einhvers staðar kringum 10% ef við tökum afganginn af ríkissjóði í ár og hagnaðinn af sölu Símans, kringum 10%. Í alþjóðlegum samanburði þegar menn bera saman ríkisskuldir heimsins þá er vant að reikna þannig að gjaldeyrisvarasjóður viðkomandi lands er alltaf dreginn frá þannig að skuldir hins opinbera, íslenska ríkisins eru í dag eins og þetta er reiknað, eru milli 4 og 5% af landsframleiðslu sem er með því allægsta sem við þekkjum í hinum vestræna heimi. Það er eitthvað sem gefur okkur mikil tækifæri í framtíðinni vegna þess að þetta er grundvöllurinn að lánshæfismati Íslands og við sem höfum þetta góða lánshæfismat eigum mikla möguleika í framtíðinni til að mæta jafnvel þeim erfiðleikum sem kunna að verða á vegi okkar — við erum einu sinni katastrófuþjóð heimsins, við skulum alltaf búa okkur undir það — en Ísland og íslenska ríkið stendur mjög vel að vígi, betur en flestar aðrar þjóðir Evrópu.