132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:33]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Skattastefna ríkisstjórnarinnar miðar að því að efnahagslífið og einstaklingarnir í þjóðfélaginu geti blómstrað, vaxið og dafnað. Þannig hefur íslenska ríkisstjórnin miðað allt við að skattstofninn sjálfur sé til staðar. Þannig hafa tekjur ríkisins vaxið þrátt fyrir það að skattprósenta hafi lækkað. Það er því engin tvísögn í þessu. Þetta er nákvæmlega eins og við ætluðum að gera það og það hefur borið ríkulegan ávöxt. Þess vegna stendur íslenska ríkið svo vel sem ég lýsti áðan. Þótt eitthvað beri á milli talna frá því í september frá Seðlabankanum þegar við drögum frá afganginn á ríkissjóði í ár plús sölu Símans þá fáum við nákvæmlega sömu tölu.

Íslenska ríkið veit að þannig búum við best í haginn fyrir framtíðina. En það er mikil misheyrn hjá hv. þingmanni ef hann hefur heyrt mig segja það í dag að allt væri í hinum mesta blóma. Ég hef einmitt varað við því hvernig hlutirnir standa og hvatt menn til að fara varlega. Ég hef jafnframt sagt að þó við yrðum fyrir einhverjum smávandræðum þá væri íslenskt efnahagslíf og íslenska ríkið það vel búið að við mundum strax ná fluginu aftur. Menn skulu ekki örvænta um stöðu þess. Þetta er málið sem við horfumst í augu við. Þannig er staðan í dag. Hún er blómleg þótt menn verði að gæta sín á því að hættur geti verið á næsta leiti.