132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Annars vegar segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að efnahagurinn hvíli á mjög traustum grunni. Hann vísar þar í kannanir sem sýna að við stöndum í fremstu röð. Hins vegar hefur hv. þingmaður uppi mikil varnaðarorð um að hér geti stefnt í óefni. Mig langar til að spyrja hann hvaða afleiðingar það muni hafa þegar dregur úr tímabundnum þenslusköttum, sem nú streyma inn í ríkissjóð, um 20 milljarðar umfram það sem áætlað hefur verið. Eins og kemur fram í fylgigagni með fjárlagafrumvarpinu er þar um að ræða rúma 4 milljarða í stimpilgjöld, virðisaukaskatt, gjöld af ökutækjum og fjármagnstekjuskatt vegna sölunnar á Símanum. Allt eru þetta tímabundnir skattar, tímabundið innstreymi í ríkissjóð.

Þegar það síðan gerist að skattbreytingar ríkisstjórnarinnar hafa náð fram að ganga í lok kjörtímabilsins, sem mun rýra tekjur ríkissjóðs um á milli 20–30 milljarða kr., hvernig gengur þá dæmið upp hjá manninum, sem sagði okkur í dag og útlistaði hve erfitt væri að skera niður rekstrargjöld ríkisins? Hvernig gengur það dæmi upp? Þegar sleppir þenslusköttunum, þegar þeir eru horfnir og ekkert er hægt að selja til að hagnast á, einkavæðingin er búin og þessar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hafa náð fram að ganga, hvernig gengur það dæmi upp? Það væri fróðlegt að fá örlitla kennslustund í því.