132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir mjög málefnalega umræðu um fjárlagafrumvarpið sem fram hefur farið í dag. Menn hafa aðeins farið í talnaleiki nú í lokin. Menn ná ekki alveg að láta tölurnar standast á hver hjá öðrum.

Ég held að það sem skipti mestu máli varðandi skuldastöðu ríkissjóðs sé að á næsta ári verða vaxtatekjur ríkissjóðs í fyrsta skipti meiri en vaxtagjöldin. Ég held að það hljóti að segja meira en nokkuð annað um skulda- og eignastöðuna þar á móti. (ÖJ: Hvað er það til langs tíma?) Um það getur auðvitað enginn sagt nákvæmlega en þannig verður staðan á næsta ári miðað við þær áætlanir sem uppi eru.

Hv. þm. Helgi Hjörvar heldur því fram að ríkisstjórnin hafi gefist upp við hagstjórnina. Því fer víðs fjarri. Við grípum til þeirra úrræða sem við teljum nauðsynleg út frá stöðunni í dag og Þjóðarbúskapurinn skýrir þá mynd betur en nokkuð annað, hvernig við teljum að málin standi og hvernig þau muni þróast á næsta ári og næstu ár þar á eftir. Hann segir jafnframt að aðrir verði að taka á vandanum.

Ég tek hins vegar undir með Seðlabanka Íslands. Hann segir að til viðbótar því sem Seðlabankinn sé að gera verði ríkissjóður, atvinnulífið og bankakerfið jafnframt að taka á. Ég lít svo á að allir sem koma að því að gera þetta hagkerfi þurfi að takast á við þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir. Sumar hverjar hafa orðið óvænt á því tímabili sem núverandi fjárlög gilda fyrir.

Hv. þingmaður talaði jafnframt um kerfisbreytingar, að veita þurfi meira aðhald í ríkisfjármálunum og hafa meira eftirlit. Ég vil kannski ekki taka undir með honum með að gera þurfi kerfisbreytingar en get alveg verið sammála honum um að alltaf sé svigrúm til að auka aðhald og eftirlit með því hvernig farið er með fjármuni ríkisins. Það mun ekki standa á því að ég geri mitt ýtrasta til þess að það sé í góðu lagi.

Ég er hins vegar svolítið hissa á umræðu Samfylkingarinnar um hugsanlega myntbreytingu og um evruna, sérstaklega í ljósi þeirrar áherslu sem ég hef orðið var við hjá talsmönnum Samfylkingarinnar á virkni Seðlabankans og áhrif Seðlabankans á hagstjórnina. Ef við tækjum upp aðra mynt, t.d. evruna, þá mundum við missa það stjórntæki sem Seðlabankinn er. Ég tel að Seðlabankinn sé mikilvægt stjórntæki og tel að hann hafi jákvæð áhrif í umhverfi okkar í dag, þótt vissulega fylgi þeim áhrifum ákveðin neikvæð áhrif, a.m.k. tímabundið. En undir öðrum kringumstæðum, undir þeim kringumstæðum að um almenna verðlagsverðbólgu væri að ræða en ekki eignaverðbólgu, bæði í fasteignum og hlutabréfum, þá held ég að virkni Seðlabankans væri miklu meiri en hún virðist í dag og þau neikvæðu áhrif sem við sjáum yrðu jafnframt miklu minni. Ég er ekki viss um að það sé rétt ályktun að draga af stöðunni í dag, að það sé rétt að skipta um mynt eða að hún kalli sérstaklega á að taka það til skoðunar núna. Ég sé ekki rökin fyrir því.

Ég get vel tekið undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni með að skuldir þjóðarinnar, þ.e. heildarskuldir þjóðarinnar, einstaklinga, fyrirtækja, sveitarstjórna og auðvitað ríkisins líka — skuldir ríkissjóðs eru í dag bara brot af þeim heildarskuldum en voru áður yfirgnæfandi — er nokkuð sem maður þarf alltaf að hafa áhyggjur af, þ.e. að skulda of mikið, hvort sem það er í stóru eða litlu samhengi. Maður þarf að gæta að því að eiga fyrir skuldunum. Hins vegar eru skuldararnir, þeir sem eiga þær skuldir, fjölmargir. Þeir hafa tekið lánin á mismunandi forsendum en ég ætla að vona að þeir hafi gert það á þeim forsendum að þeir væru borgunarmenn fyrir þeim. Þeim hefur líka verið lánað í þeirri trú að þeir væru borgunarmenn. Þessi lán eru lán á markaði og enginn er þvingaður til að taka lánin. Það er enginn þvingaður til að veita þau. Þeim fylgir viðskiptaáhætta á báða bóga en viðskiptakerfi okkar á að vera í stakk búið til að takast á við ýmsar uppákomur í þeim efnum. Bak við þetta eru auðvitað eignir sem skila arði til þeirra að standa þar að baki.

En ég tel, hæstv. forseti, að við höfum átt góðar og gagnlegar umræður í dag. Þetta er auðvitað 1. umr. Umræðunni í heild er langt frá því lokið. Ég vil þakka fyrir umræðuna og óska þess að okkur takist að afgreiða fjárlögin frá þinginu á tilsettum tíma.