132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin og þeir sem hafa undirbúið þessa vinnu hafa upp skorið eins og þeir hafa sáð. Það nægir að rifja upp hvernig sú nefnd sem hæstv. ráðherra nefndi var skipuð. Það er umhugsunarefni þegar ríkisstjórnin ætlar að ná samvinnu um málin að þá skuli ekki öllum vera hleypt að borðinu, eða hvernig var staðið að því að velja fulltrúa stjórnarandstöðunnar inn í hana? Var það ekki ríkisstjórnin sem skammtaði stjórnarandstöðunni aðild að þessari nefnd? Ekki man ég betur.

Hæstv. forseti. Ég tel að niðurstaðan lýsi því að tekjustofnanefndina bar á sínum tíma upp á sker. Hún kom ekki með neinar trúverðugar tillögur í tekjustofnamálunum eða til úrbóta í tekjustofnamálum sveitarfélaganna og þar vantar enn varanlega úrlausn. Þess vegna hljótum við nú að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort ríkisstjórnin ætli að láta sér þetta að kenningu verða og þeir sem að þessum málum hafa unnið hingað til, hvort væntanlegar séu tillögur til úrbóta sem gera sveitarfélögunum kleift að standa þannig straum af kostnaði við rekstur lögbundinna verkefna og nauðsynlegrar þjónustu í sveitarfélögunum að þau telji það vera viðunandi, þ.e. að sveitarfélögunum verði gert kleift, sama hverrar stærðar þau eru, að standa að sínum málum með reisn.

Það verður að segjast alveg eins og er, virðulegi forseti, að tekjustofnanefndin kom allt of seint með tillögur sínar og á sama tíma og hún kemur með tillögur sínar og niðurstaða þessara kosninga liggur fyrir þá vitum við öll að ríkisstjórnin telur sig geta orðið af tugum milljarða tekna í formi skattalækkana en það er ekki verið að koma með varanlegar hugmyndir um úrbætur til sveitarfélaganna. Þetta er auðvitað óviðunandi og það eru viðbrögð við þessu sem við getum lesið út úr niðurstöðu kosninganna sem fóru fram á laugardaginn.