132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:16]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þetta er einkennileg umræða og einkennilegur málflutningur. Atkvæðagreiðsla hefur farið fram í fjölda sveitarfélaga um sameiningu og niðurstaðan er sú í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu að kjósendurnir hafa ekki áhuga á sameiningu, eins og kom fram í Grýtubakkahreppi, kjósendur eru bara tiltölulega ánægðir með sveitarstjórnarfyrirkomulagið eins og það er og þjónustustigið sem sveitarfélög veita. Þá koma upp þingmenn og reyna að finna einhvern blóraböggul og kenna einhverjum um, þetta sé einhverjum að kenna, þetta og hitt hafi ekki verið gert, þetta hafi ekki verið kynnt og undirbúið nógu vel. Niðurstaðan er svo afgerandi að eins og sakir standa er ekki eftirspurn eftir því að sameina sveitarfélögin og gera þau stærri og, eins og hv. þm. Einar Sigurðarson sagði, að þau tækju þá til sín fleiri verkefni. Eins og sveitarstjórinn í Grýtubakkahreppi sagði: Kjósendur eru tiltölulega ánægðir með stöðuna eins og hún er í dag. Og meðan þeir eru það þá verður hún auðvitað þannig og sátt verður um niðurstöðuna. Það þýðir ekkert annað. (ÖJ: Þetta eru nú útúrsnúningar.)