132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:22]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Töluverð samstaða hefur verið á Alþingi um þá pólitísku stefnumörkun að stækka og efla eigi sveitarfélögin og flytja til þeirra verkefni. Nýr ráðherra félagsmála fékk þetta sem sitt stærsta og mesta verkefni á þessu kjörtímabili. Hann er nú kominn úr þeirri sjóferð. Hann gleymdi að beita línuna eða vildi það ekki og kemur nánast með öngulinn í rassinum úr þeirri ferð. Það eina sem gerist er að samþykkt var á einu svæði að sameinast. Svo eru menn bara ánægðir með þetta, þetta er bara fínt, fólkið hefur talað. Sums staðar eru kannski 16 menn sem geta myndað meiri hluta um að segja já eða nei. Það er lýðræðislínan sem er dregin.

Á Alþingi hefur ekki verið farið yfir það hvort menn hafi myndað grunninn eins og eðlilegt væri fyrir þessum hlutum. Hér hafa menn farið af stað með leið sem ekki var undirbyggð á eðlilegan hátt. Það þurfti auðvitað að sjá til þess, úr því menn ætluðu sér að flytja verkefni til sveitarfélaganna, að þau yrðu nægilega öflug til að taka við þeim verkefnum og það eru þessi litlu sveitarfélög ekki. Þann grunn þurfti að tryggja hér á Alþingi og það var ekki gert.

Til viðbótar því fór hæstv. félagsmálaráðherra ásamt félögum sínum í eitthvert þvarg við sveitarstjórnarmenn um hve mikla peninga þyrfti til að reka sveitarfélögin og út úr því kom ekki neitt. Niðurstaðan varð sú, (Gripið fram í: … 10 milljónir.) aðalniðurstaðan er sú að ekki er hægt að treysta sveitarstjórnarmönnum fyrir því að hafa eitthvert svigrúm til þess að leggja á íbúa sína. En hér treysta menn sér til að hafa það með höndum að ákveða hver skattheimtan eigi að vera. (Forseti hringir.) Og það er það sem vantar.