132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Vaxtahækkun Seðlabankans.

[15:33]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég held að við verðum að hafa í huga að við búum við frjálsa fjármagnsflutninga. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þau skuldabréfakaup sem hafa átt sér stað undanfarið hafa styrkt gengið. Að mínu mati dregur það úr þörf Seðlabankans til að hækka stýrivexti á næstunni.

Ég hef áður lýst skoðunum mínum á að breyta eiginfjárhlutfalli bankanna við þessar aðstæður. Ég tel að það sé ekki mikilvægt. Ég tel að staða bankanna sé almennt góð og eiginfjárstaða þeirra mjög sterk. Hins vegar er ljóst að útlán bankanna hafa verið mikil að undanförnu vegna þess að það ríkir mikil bjartsýni í þjóðfélaginu. Það eru hins vegar merki um hjöðnun á húsnæðismarkaði. Eftirspurn eftir lánum hefur hjaðnað og eftir þeim upplýsingum sem ég hef hafa jafnvel stærstu eignir lækkað í verði upp á síðkastið. Ég tel því ekki jafnmikla ástæðu til þeirrar gífurlegu svartsýni sem virðist ríkja hjá stjórnarandstöðunni í þessum málum. Það ríkir mikil bjartsýni og er mikill hugur í landsmönnum. Það er af hinu góða. Við göngum í gegnum sveiflu í efnahagslífinu og það ætti öllum að vera ljóst. Ég tel að íslenskt efnahagskerfi hafi alla burði til að þola þá sveiflu og finnst að stjórnarandstaðan á Alþingi ætti að vera heldur bjartsýnni í samræmi við aðra landsmenn.