132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Vaxtahækkun Seðlabankans.

[15:35]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið þótt ég sé ekki sammála honum. Ég vil geta þess að ekki minni maður og fjármálaspekúlant en stjórnarformaður KB-banka lýsti því fyrir tæpu ári að það að hækka eiginfjárstöðu bankanna, breyta þeim reglum og nýta þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur í þessu sambandi, væri liður í að draga úr hinni óhóflegu þenslu og hinni miklu þörf bankanna fyrir að lána fé, að koma peningunum út.

Inn í þetta blandast líka, virðulegi forseti, önnur staða á peningamarkaði. Það var t.d. afar athyglisvert að heyra lýsingu á því hjá forráðamönnum Íbúðalánasjóðs að þegar bindiskylda bankans var minnkuð fyrir einu og hálfu ári síðan fylltust allar peningastofnanir af peningum sem þurfti að koma út á markaðinn. Það skyldi þó ekki vera að einhvers staðar væri brotalöm í þessu kerfi, t.d. með innborgunum til Íbúðalánasjóðs sem hafi haft áhrif á gengisvísitöluna og valdið verðbólguáhrifum í landinu.