132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Aðgangur að gögnum einkavæðingarnefndar.

[15:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í aðgang Alþingis og þingmanna að gögnum og vinnu einkavæðingarnefndar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að einkavæðingarnefnd hefur tamið sér ákaflega lokuð vinnubrögð. Skortur á upplýsingum til Alþingis, t.d. á sundurliðun á kostnaði við störf nefndarinnar, hefur áður orðið að hörðu deiluefni á þinginu. Stjórnskipuleg staða einkavæðingarnefndar er óljós sem og í reynd ráðherranefndar um einkavæðingu. Á þetta hafa bæði Ríkisendurskoðun bent og umboðsmaður Alþingis óbeint með spurningum sínum til hæstv. forsætisráðherra.

Einkavæðingarnefnd hefur með höndum ráðstöfun mikilla fjármuna. Komið hefur á daginn að hún kaupir sér ráðgjöf fyrir óheyrilegar upphæðir, svo nemur hundruðum milljónum kr., og virðist hafa mikið sjálfdæmi um hvernig hún stendur að verki og, það sem alvarlegra er, hvað eða yfir höfuð hvort hún gerir nokkurn skapaðan hlut með þær ráðleggingar sem hún kaupir dýrum dómum. Frægt er orðið að þóknun Morgan Stanley fyrir sölu Landssímans er hartnær 700 millj. kr., hvort sem farið var að ráðunum eða ekki. Einnig hefur það gerst að fjölmiðlar hafa fengið sér dæmdan aðgang að upplýsingum sem einkavæðingarnefnd hefur haldið leyndum fram að því. Þá kemur á daginn að ýmist hefur ekkert verið gert með sumar hinna dýru ráðlegginga eða jafnvel hið gagnstæða, gert öfugt við það sem lagt var til í þeim ákvörðunum sem menn hafa tekið í einkavæðingarnefnd eða ráðherranefnd um einkavæðingu.

Ég tel að hlutur Alþingis og aðkoma að þessum málum sé með öllu óásættanleg. Það gengur ekki að Alþingi og þingmenn séu allra síðastir til að sjá gögn um mikilsverð mál af þessu tagi. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Verður séð til þess að alþingismenn fái a.m.k. ekki lakari aðgang að gögnum, skýrslum og öðru slíku frá einkavæðingarnefnd, en fjölmiðlar hafa fengið sér dæmdan á grundvelli úrskurðarnefndar um upplýsingamál?