132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Aðgangur að gögnum einkavæðingarnefndar.

[15:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Heldur var þessi vörn fátækleg. Að sjálfsögðu er það ekki endilega þannig að menn þurfi að skuldbinda sig fyrir fram til að fara eftir hverju því sem hin dýru ráðgjafarfyrirtæki leggja til. En maður hlýtur þá að spyrja fyrst: Er ástæða til að kaupa hina svakalega dýru ráðgjöf ef menn telja nánast aukaatriði hvort eitthvað er gert með hana eða ekki? Hvað kemur í staðinn ef ekki er farið að tillögum hinna ráðnu ráðgjafa? Er það þá pólitískur geðþótti? Er það niðurstaðan?

Ég tel að Alþingi hljóti að þurfa að taka til skoðunar á vettvangi þingnefnda eða þingflokka hvort við það verði unað að Alþingi skuli ekki sjálft hafa greiðari aðgang að upplýsingum um þessi mál og frekari möguleika en reyndin hefur verið, til að halda uppi sjálfstæðu eftirliti með því hvernig farið er með þessa miklu fjármuni, þegar selt er úr eigu þjóðarinnar tugmilljarða eða hátt í 100 milljarða kr. fyrirtæki. Það gengur auðvitað ekki, frú forseti.