132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Lækkun matarskatts.

[15:51]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að taka þessu svari hæstv. fjármálaráðherra sem sagði að sjálfstæðismenn væru að vinna að þessu áfram eins og hingað til. Það hefur ekki farið mikið fyrir þeirri vinnu, a.m.k. ekki svo að við sem sitjum á þingi sjáum. Það hefur þá gerst í einhverjum bakherbergjum á bak við luktar dyr að menn hafi verið að reyna að vinna málinu fylgi.

Það er ljóst að bæði hjá þingi og þjóð er stuðningur við að lækka matarskattinn. Það er víðtækur stuðningur í þinginu. Mælingar Gallups sýna að mun víðtækari stuðningur er við lækkun matarskattsins en lækkun tekjuskattsins. Ég tel að þegar svo víðtæk pólitísk samstaða er í samfélaginu þá eigi menn að freista þess að fara þá leið og ná saman um málið.

Hæstv. fjármálaráðherra segist ekki vilja fórna tekjuskattslækkuninni fyrir matarskattinn. Getur hæstv. fjármálaráðherra bent á aðra leið til að ná fram þessu brýna hagsmunamáli fyrir það fólk sem hefur minnstar tekjur í samfélaginu? Því það er alveg ljóst að þetta er sú leið sem mun ekki síst gagnast því fólki.