132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Meiðyrðalöggjöf og Lugano-samningurinn.

[15:59]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að taka undir það með hæstv. dómsmálaráðherra að hér er um merkilegt mál að ræða sem hlýtur að vekja menn til umhugsunar um meiðyrðalöggjöfina og lagasetninguna alla í kringum þetta þar sem um er að ræða mjög athyglisvert mál sem getur komið upp aftur og aftur.

Mikill fjöldi Íslendinga býr á erlendum málsvæðum og því geta tilvik sem þetta komið upp aftur og aftur og því þarf réttarstaða Íslendinga hvað þetta varðar að sjálfsögðu að vera ljós. Í þessu tilfelli er um að ræða verulegar fjárhæðir og hefur dómurinn yfir umræddum prófessor ekki síst vakið athygli fyrir þá háu bótaupphæð sem eru held ég einar 12 millj. kr. sem hann er krafinn um vegna meiðyrða sinna sem talið er að fallið hafi samkvæmt hinum breska dómi og upphæðin orðið til þess að viðkomandi lendir í vandræðum og málið vekur sérstaka athygli út af því.

Það hlýtur því að koma upp sú krafa að stjórnvöld endurskoði málið og taki afstöðu til þess hvort við þurfum að endurskoða meiðyrðalöggjöfina sérstaklega með þetta fyrir sjónum.