132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:14]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Heiður þeim sem heiður ber og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að segja að hann sé þakklátur hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að hafa átt frumkvæði að því að koma fram með þessa hugmynd. Ég átti ekki við að hv. þingmaður eða Samfylkingin hefði komið fyrst fram með þá hugmynd að reisa einn spítala undir hið sameinaða hátæknisjúkrahús. Ég man ekki eftir því að nokkur maður innan þings eða utan hafi orðað það áður að nota andvirði eða hluta af andvirði við sölu Símans til þess að reisa þetta hús, en það var Kristján L. Möller sem kom fram með þá hugmynd og rökstuddi hana ákaflega vel bæði í ræðu hér og riti annars staðar.

Frú forseti. Þegar maður lítur yfir það hvernig símasilfrinu er dreift yfir landið kemst maður ekki hjá því að sjá glögg merki um að þeir fá mest sem eru frekastir, þeir sem eru duglegastir í kjördæmapotinu fá mest. En hver talar fyrir aldraða? Aldraðir hafa verið afskiptur hópur og það er enginn sem er sérstaklega að berjast fyrir þá a.m.k. ekki á sama grunni og þeir sem eru að berjast fyrir sín kjördæmi. Það kemur í ljós að þarna hefði verið tækifæri til að taka myndarlega á í uppbyggingu dvalarheimila og hjúkrunarheimila fyrir þá kynslóð sem byggði upp landið þegar Síminn varð að því stórfyrirtæki sem hann var þegar hann var seldur. Um hana er ekki hugsað.

Drottinn minn, ég tek svo sannarlega undir með hæstv. ráðherra. Það er verulegt gleðiefni að þarna var settur milljarður í málefni geðfatlaðra. Það var stórkostlegt og ríkisstjórninni sé þó þökk fyrir að hafa rænu á því. En hitt verð ég að segja að ég er bæði hnugginn og dapur yfir því að í þessu birtist enn og aftur að hæstv. ríkisstjórn gleymir öldruðum og hún verður minnt á þetta aftur og aftur meðan þetta mál er til umræðu í þinginu.