132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hefði gjarnan kosið að hæstv. forsætisráðherra væri viðstaddur þessa umræðu. Um er að ræða óskabarn hans og hann stærir sig af fáu meir þessa dagana en því afreki að selja Símann. Það hefði auðvitað verið æskilegt að hann væri við.

(Forseti (RG): Forsætisráðherra er kominn.)

Sem ég segi þetta gengur forsætisráðherra í salinn. Svona á þetta að vera.

Ég vil byrja á því að vekja athygli á því, þótt það skipti kannski ekki miklu, að bæði í framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra sem og í greinargerð með frumvarpinu byrjar tímatalið ekki fyrr en 2004. Af einhverjum ástæðum velja höfundar greinargerðar frumvarpsins og framsögumaður að minnast ekki einu orði á fyrri tilraunir til að einkavæða Símann. Það hefði sögunnar vegna verið gaman að sjá smásamantekt á því máli, þ.e. hvernig til tókst á árinu 2001. En það passar ekki inn í glansmyndina sem reynt hefur verið að draga upp af því hve einstaklega vel þetta hafi verið heppnað, eins og hæstv. forsætisráðherra komst að orði áðan þegar við áttum orðastað um vinnu einkavæðingarnefndar. Ég verð að segja að þau ummæli sem þá féllu um að einkavæðingarnefnd hefði unnið alveg sérstaklega opið að verkefnum sínum er með meiri öfugmælum sem ég hef heyrt seinni mánuði. Staðreyndin er sú að það hefur þurft að sækja hvert einasta hæti til einkavæðingarnefndar með töngum, draga fram í dagsljósið, annaðhvort í krafti upplýsingarréttar þingmanna eða þá að fjölmiðlar, eins og Fréttablaðið nú síðast, hafa beitt fyrir sig úrskurðarnefnd um upplýsingamál til að draga fram skýrslur og gögn sem skipta máli við að meta vinnubrögðin, þegar menn selja úr hendi hins opinbera milljarðatugaverðmæti. Ef það kemur ekki eitthvað við Alþingi og almenningi, sem á þessar eignir, þá veit ég ekki hverjum það kemur við.

Það er ástæða til að halda því til haga, frú forseti, að það að ríkisstjórnin klúðraði því að selja Símann á árinu 2001 hefur skilað þjóðinni a.m.k. 35 milljörðum í tekjur umfram það sem orðið hefði, ef þeim hefði tekist ætlunarverkið á síðari hluta árs 2001, að selja Símann fyrir 42 milljarða kr. Það er nefnilega þannig að síðan það gerðist hefur Síminn greitt í ríkissjóð 11,5 milljarða kr. í arð og hefur aukist að verðmæti um tæpa 25 milljarða, ef bornar eru saman tölurnar. 42 milljarðar voru á verðmiðanum, ef minni mitt svíkur ekki sem var settur á Símann haustið 2001 en endanlegt söluandvirði nú er upp á 66,7 milljarða. Þá eru það 36,2 milljarðar, sé þetta tvennt lagt saman, sem þjóðin hefur hagnast á að snillingunum tókst ekki að selja Símann fyrir fjórum árum. Má þá ekki leyfa sér að álykta að kannski gæti verið býsna góður bisness að eiga hann áfram um aftur nokkur ár? Kannski við yrðum þá enn nokkrum tugum milljörðum króna ríkari.

Frú forseti. Það er vert að draga athyglina að því hvernig menn stæra sig af því sem afreki að hafa náð að selja eina verðmætustu sameign þjóðarinnar. Það er svolítið kostulegur málflutningur. Mundi einhver heimilisfaðir koma heim rígmontinn og hælast um við fjölskyldu sína að honum hefði tekist að selja undan fjölskyldunni — ég segi nú kannski ekki húsið en segjum bíllinn — fjölskyldubílinn og nú væri best að fara til útlanda í ærlegt frí. Svo kæmi að vísu fjölskyldan heim nokkrum vikum síðar og ætti þá engan bíl en það gæti verið góð ferð. Halda menn virkilega að almenningur í landinu sé ekki nógu dómbær og skynsamur á þessa hluti til að sjá að það er ekkert sérstakt afrek hjá ráðamönnum, til að ganga um bólgnir af monti yfir að selja úr eigu þjóðarinnar í eitt skipti fyrir öll verðmætar sameignir hennar, sem þar með eru farnar, verða ekki notaðar aftur, gefa ekki af sér frekari arð og vaxa ekki að verðmæti í eigu þjóðarinnar.

Mér hefur fundist, frú forseti, þessi málflutningur ótrúlega einfeldningslegur og í raun virðingarleysi við heilbrigða skynsemi fólks að halda að menn slái keilur á því að monta sig af því að selja svona fjölskyldusilfur. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið andvíg einkavæðingu Landssímans af fjórum meginástæðum. Við erum í fyrsta lagi andvíg því að einkavæða almannaþjónustu. Hér skiptir miklu máli hvernig menn nálgast hlutina. Líta menn á fjarskiptin í landinu sem bisness, sem hverja aðra atvinnustarfsemi til að græða á henni, eða líta menn á hana sem mikilvæga almannaþjónustu í samfélaginu, ekki síst í upplýsingasamfélagi nútímans.

Í öðru lagi erum við andvíg því að selja fyrirtæki eins og Landssímann með grunnfjarskiptanetinu þegar við blasir að af því hlýst fákeppni og einokun, sambland af þessu. Hvar er hæstv. viðskiptaráðherra, sem samkeppnismál heyra undir? Veltir virkilega enginn því fyrir sér hvað er verið að gera með því að búa til einkavædda einokun og einkavædda grimma fákeppni á þessu mikilvæga sviði viðskipta og þjónustu í landinu? En það er niðurstaðan. Það fá menn út úr þessum breytingum, að tveir fjarskiptaaðilar, annar risi og hinn stubbur, skipta markaðnum algerlega á milli sín. Er það fyrirkomulag sem við teljum eftirsóknarvert, að búa til enn eitt svið þar sem slík hörkufákeppni eða einokun ríkir, ég tala ekki um þegar um náttúrlega einokun er að ræða í þeim skilningi að það er aðeins eitt grunnfjarskiptanet í landinu.

Í þriðja lagi erum við andvíg því að ríkið láti úr hendi sinni tækið sem hið opinbera fjarskiptafyrirtæki er og hefur verið til að framkvæma þá stefnu í fjarskiptamálum sem stjórnvöld vilja stuðla að á hverjum tíma. Það verður að vísu að segjast að þar hefðu menn getað gert betur undanfarin ár. En lengi vel stóðu Póstur og sími og síðan Landssíminn sig vel í því að tryggja Íslendingum góð nútímaleg fjarskipti á hagstæðum kjörum, alveg sérlega góð ef haft er í huga hversu hér býr fámenn þjóð í stóru landi. Íslendingar voru t.d. í hópi allra fyrstu þjóða til að taka upp tækninýjungar eins og stafrænan síma, langdræga farsímakerfið og skammdræga farsímakerfið. Það sagði sína sögu um það fyrirkomulag sem við bjuggum við og hafði nýst okkur vel.

Í fjórða lagi er ástæða til að hafa miklar efasemdir um þetta ráðslag sem hreina viðskiptaákvörðun. Er það endilega góð ráðstöfun opinberra fjármuna að selja þetta fyrirtæki þótt menn telji sig fá mikla fjármuni fyrir það? Auðvitað eru 66,7 milljarðar heilmiklir peningar en menn eru líka að láta frá sér í eitt skipti fyrir öll gífurlega verðmæta eign sem hefur skilað eiganda sínum, þjóðinni, mjög miklum arði undanfarin ár, svo maður tali ekki um „extraordíner“ arðgreiðsluna í ár, sem var upp á 6.330 millj. kr., sem var í raun útgreiðsla á eigin fé Símans að hluta og yfir öllum venjulegum arðsemismörkum. En tökum bara árin tvö á undan, 2.146 millj. kr. hvort ár. Það er dálaglegt búsílag fyrir ríkissjóð. Það eru allar forsendur til þess að fyrirtækið hefði á komandi árum getað greitt þetta eða meira í ríkissjóð. Það er ekki fráleitt að miða við að 3 milljarða arðgreiðsla, miðað við stærð fyrirtækisins í dag, hefði orðið reglan næstu árin. Og hve lengi er þá Síminn að borga sig aftur og verða skuldlaus eign ríkisins eða þjóðarinnar á nýjan leik? Hann er 15 ár að því, 12–15 ár miðað við 3 milljarða arðgreiðslur á ári og kannski 1–2 milljarða verðmætisauka í fyrirtækinu á ári.

Í svari við fyrirspurn frá mér er það rakið, frú forseti, á þskj. 1092 frá síðasta þingi, að Síminn hafi, frá því að hann hóf að greiða eiganda sínum, þ.e. ríkinu fyrir hönd þjóðarinnar, arð — það var reyndar á árinu 1989 í tíð ónefnds samgönguráðherra — greitt 23,8 milljarða í ríkissjóð. Á þessum rúma eina og hálfa áratug hefur Síminn skilað í sjóði okkar, til viðbótar skattgreiðslum eftir að hann varð fyrirtæki sem slíkt, þessari fjárhæð. Það er meiri fjárhæð en hæstv. heilbrigðisráðherra var að gleðjast yfir að fá út úr þessu dæmi til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Má ég minna hæstv. heilbrigðisráðherra á að það þarf að gera fleira en að byggja sjúkrahús. Það þarf að reka þau líka og það þarf tekjur til þess.

Sumum finnst auðvitað dálítið verið að byrja á röngum enda að lofa núna 18 milljörðum í byggingu hátæknisjúkrahúss á sama tíma og rekin er sveltistefna gagnvart rekstri mikilvægustu heilbrigðisstofnana í landinu. Það þarf líka að huga að rekstrinum og ætli menn muni þá ekki sakna vinar í stað þar sem m.a. var Síminn sem skilaði myndarlegum fjárhæðum árlega í sameiginlega sjóði í formi arðgreiðslna?

Nú geta menn haft þá pólitík og þá trú að það eigi bara að einkavæða og það er út af fyrir sig sjónarmið. Það getur vel verið að Framsóknarflokkurinn sé alfarið búinn að taka upp þá stefnu að það eigi bara að einkavæða af því bara. Í Noregi hafa t.d. setið hægri stjórnir við völd, hægri miðjustjórn eins og sú síðasta, sem Norðmenn eru að vísu sem betur fer að losna við núna, en hvaða afstöðu hefur hún tekið til eigna ríkisins í verðmætum stórum fyrirtækjum? Hún hefur tekið mjög praktíska afstöðu til þeirra. Það mega þó hægri menn í Noregi eiga að þeir hafa hafið sig upp úr kreddunni og sagt: Hvernig er hagstæðast að halda á þessum hlut hins opinbera í þessum verðmætu fyrirtækjum, símafyrirtæki, banka, olíufyrirtæki. Þar hafa menn sagt: Þetta er að skila ágætum arði til ríkisins, það er bara býsna góð ráðstöfun að ríkið eigi þetta áfram. Ef menn hafa farið út í breytingar hafa þeir trappað niður eignarhald ríkisins mjög rólega og selt í smáum skömmtum út á markaðinn hlut þannig að ríkið dregur sig í rólegheitum til baka eða niður í eign viðkomandi fyrirtækja. Dæmi: ríkisolíufyrirtækið Statoil.

Hvað halda menn nú að Norðmenn hafi grætt á því að fara þessa opinberu leið, sem búið er að gera að skammaryrði yfirleitt alls staðar að ríkið komi nálægt nokkru eða félagslegir aðilar, í staðinn fyrir að fara dönsku leiðina? Þegar Norðmenn og Danir stóðu frammi fyrir því að hefja vinnslu á svarta gullinu úr Norðursjó fóru þeir í grundvallaratriðum ólíkar leiðir og það er gaman að bera þetta saman. Norðmenn byggðu upp öflugt ríkisolíufyrirtæki í eigu norsku þjóðarinnar sem er orðið að heimsveldi í dag með viðskipti og stöðvar úti um allan heim og hefur skilað gríðarlegum auðæfum inn í norskt þjóðarbú, er m.a. einn aðalgreiðandinn að hagnaði inn í olíusjóðinn svonefnda. Danir, sem þá voru undir stjórn hægri manna, fóru þá leið að afhenda A.P. Möller olíuvinnslu- og gasvinnsluréttindin í Norðursjó. Jú, A.P. Möller er ágætt fyrirtæki og hefur greitt heilmikla skatta en allur verðmætisaukinn hefur hins vegar farið í þetta einkafyrirtæki sem nú er að hluta til orðið í amerískri eigu. Danir eiga ekkert Statoil í dag, Danir eiga engin milljarðahundruð í formi verðmæts fyrirtækis sem þeir byggðu þarna upp. Það má segja að á sinn hátt hafi Síminn okkar verið dæmi um það að á sínum tíma fóru menn þessa opinberu leið. Það var kannski ekki mikið annað að gera á þeim tíma en nú er hins vegar öldin önnur og nú þykir það afrek, sem mann ganga um og hæla sér af á torgum, að hafa selt þessa verðmætu sameign þjóðarinnar í eitt skipti fyrir öll.

Það hefur verið gaman að fylgjast með greinaskrifum fótgönguliðanna úr stjórnarflokkunum, sem nú halda að þeir séu loksins komnir í aðstöðu til að slá keilur og skrifa greinar, þar sem þeir hælast um af þessum glæsilega árangri stjórnarinnar að hafa náð að selja Símann, að hafa afrekað það í annarri tilraun að selja Símann, eins og peningarnir komi bara innan úr brjóstinu á þeim sjálfum af því að ríkisstjórnin seldi Símann. Það er nú ekki þannig. Þetta er verðmæt sameign sem byggst hefur upp gegnum áratugi og notendur hafa í raun og veru byggt upp með gjöldum sínum, hefur verið hagkvæmt og praktískt fyrirkomulag og væri það áfram.

Meginástæða þess að ég er í grundvallaratriðum sannfærður um að hér er ekki verið að fara skynsamlega leið tengist hins vegar ekki þessum fjárhagslegu spekúlasjónum og jafnvel ekki því að með þessu er verið að búa til einkavædda fákeppni og einokun. Ég held að það langalvarlegasta sé það sem snýr að framtíðinni og stöðu þessara mála og þjónustu inn í framtíðina, t.d. gagnvart hinum dreifðu byggðum landsins. Þá eigum við engan Síma, við höfum ekkert tæki í okkar höndum þar sem stjórnvöld geta komið fram opinberri fjarskiptastefnu og tryggt með einföldum hætti í reynd að hún sé virk, t.d. í gegnum áframhaldandi fjárfestingar og uppbyggingu í grunnfjarskiptanetinu úti um landið. Hvernig er það mál afgreitt? Fjarskiptasjóður. Það eiga að fara 2,5 milljarðar á einhverjum árum inn í fjarskiptasjóð. Má ég þá spyrja hæstv. forsætisráðherra: Af hverju er það kallað sjóður? Er það ekki eins og hver önnur fjárveiting? Á þetta að verða varanlegu sjóður og hefur hann þá tekjustofna? Eða þornar hann upp um leið og þessum 2,5 milljörðum hefur verið varið? Væru menn að tala um 25 milljarða og að fyrir afraksturinn eða arðinn af þeim fjármunum yrði hægt að tryggja árleg framlög inn í framtíðina til að borga upp þær fjárfestingar sem nauðsynlegar eru ef landsmenn ætla að búa við jafnræði en ekki endilega arðbærar frá sjónarhóli fyrirtækisins, þá værum við að tala um eitthvað sem hægt væri að ræða af viti. En 2,5 milljarðar, sem slett er inn í þetta í eitt skipti og búið, er auðvitað eins og dropi í hafið. Eða vita menn ekki að Landssíminn einn hefur verið að fjárfesta í kerfinu fyrir 3–5 milljarða á ári í mörg, mörg undanfarin ár? Þetta er ekki einu sinni eins árs meðalfjárfesting annars símafyrirtækisins hvað þá meira.

Mér finnst því ástæða til að spyrja, fyrir utan það að hér hefur líka verið hreyft spurningum sem eru áhugaverðar, um þá aðferð að leggja fram frumvarp sem eftir sem áður þarf síðan að ganga inn í fjárlög og samgönguáætlun. Hér er ríkisstjórnin auðvitað að búa til sína eigin samgönguáætlun fram hjá þinginu, vel að merkja þessar framkvæmdir sem og yfirleitt allar þær sem hér fá eyrnamerkta fjármuni úr ríkissjóði á komandi árum, og eru meira og minna þarfar og góðar, um það er enginn ágreiningur. Að sjálfsögðu gleðjast menn yfir því að hægt sé að draga upp þá framtíð að miklir fjármunir verði til ráðstöfunar í að byggja upp hátæknisjúkrahús, að hægt sé að ráðast í umtalsverðar samgöngubætur o.s.frv. En sala Landssímans var engin forsenda slíks, ekki á nokkurn hátt. Að sjálfsögðu stóð eignin á móti og óx að verðmæti þó að í þetta hefðu verið lagðir fjármunir úr ríkissjóði með venjulegum hætti eða yfir vegáætlun á komandi árum. Það er eins og hver annar barnaskapur að reyna að telja mönnum trú um að við hefðum ekki haft efni á því að ráðast í þessi verk nema selja Símann þegar staðan verður svo kannski sú að innan 15 ára hefðum við átt hann hvort sem er á nýjan leik í formi arðgreiðslna og aukins verðmætis sem hann hefði skilað okkur bara með því að eiga hann áfram. Það er ósköp einfaldlega þannig.

Við fögnum auðvitað líka t.d. því að nú á að setja fjármuni í Nýsköpunarsjóð, þar á meðal einn milljarð í fjáraukalögum á þessu ári, sem er nákvæmlega sú tillaga sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði til í frumvarpi í fyrra sem við fluttum hér og töluðum að vísu þá fyrir daufum eyrum og hæstv. viðskiptaráðherra gerði lítið með það. Við lögðum til að þá yrði settur milljarður í Nýsköpunarsjóð sem er fullfjárfestur og það hamlar bersýnilega nýsköpun í landinu. Fyrir utan hin afleitu rekstrarskilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina hefur það mjög hamlað hvers kyns atvinnuuppbyggingu í nýjum fyrirtækjum að Nýsköpunarsjóður hefur enga lausa fjármuni haft og áhugi stærri fjárfesta hér á landi er fyrst og fremst bundinn við útlönd eins og kunnugt er. Menn eru að keppast við að sigra heiminn í útlöndum en ekki að fjárfesta á Íslandi.

Menn hafa líka haft hér uppi t.d. orðalag af því tagi að með þessari ráðstöfun væri verið að skila þjóðinni aftur eign sinni. Bíddu, var hún einhvern tíma frá henni tekin? Var þetta ekki allt í lagi á meðan þjóðin átti saman þetta fyrirtæki og hafði af því góðan arð og hið opinbera hafði þá í höndum sér tæki til að knýja fram þau markmið sín í fjarskiptamálum sem menn vildu, að því marki sem það var þá yfir höfuð gert og hefði náttúrlega mátt gera betur? Ég held nú ekki. Það er því einnig holt undir þeim málflutningi ef betur er að því gáð.

Herra forseti. Það er auðvitað framtíðin og hún ein sem mun síðan dæma um það þegar frá líður hvernig til tókst og hversu gáfuleg og góð þessi ráðstöfun var. Ég ætla auðvitað að vona, úr því sem komið er, að betur takist til hjá okkur en þeim þjóðum mörgum sem hafa anað út í þetta fen og hafa af því mjög blendna reynslu, sums staðar mjög slæma. Ég var í Nýja-Sjálandi fyrir tæpu ári síðan og spurði menn þar rækilega út í það sem ég hafði auðvitað kynnt mér og lesið um, reynsluna af einkavæðingu símans í Nýja-Sjálandi, og þar var mikill meiri hluti þeirra sem ég hitti að máli og ræddi við, að vísu yfirleitt fólk í sveitum og strjálbýli Nýja-Sjálands, á því að þetta hefði verið hin hörmulegasta ráðstöfun hvað það snerti. Menn gætu sennilega unað sæmilega við sinn hlut í höfuðborginni Wellington og stærstu borginni Auckland en þar með væri það upp talið. Nú horfa menn á eftir arðinum af nýsjálenska símanum renna til útlanda og gengu menn þó betur frá því þar en hér var gert að Nýsjálendingar hafi eitthvað um málið að segja jafnvel þó að eignarhaldið lendi á erlendar hendur. Það er ekki einu sinni eitt einasta gullbréf inni í Símanum eða ráðstöfun eða skilyrði eða fyrirvarar af hálfu seljandans, ríkisins, að stjórn þessa fyrirtækis skuli um aldur og ævi vera skipuð að meiri hluta af Íslendingum. Það var þó sett inn í þetta í Nýja-Sjálandi.

Í Kanada, í fylkinu Manitoba þar sem við hæstv. forsætisráðherra vorum báðir gestir í sumar, var sömuleiðis farið út á þessa braut og mér heyrðist nú blendin reynslan, svo vægt sé til orða tekið, af því hvernig það hafi komið út.