132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:05]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að ríkisstjórnin væri að leggja fram samgönguáætlun fram hjá þinginu með þessu frumvarpi. Ég veit ekki betur, frú forseti, en að þingið sé að ræða þessa tillögu þannig að þetta er ekkert fram hjá þinginu, þetta er mál sem liggur fyrir þinginu.

Hann hefur margoft sagt að verið sé að selja mjólkurkúna og það er endalaus ólund í hv. þingmanni út af því. Auðvitað erum við að selja eina mjólkurkú og fá aðra sem er miklu nythærri og miklu betri sem felst í því að greiða niður skuldir, greiða niður skuldir ríkissjóðs bæði innan lands og erlendis.

Svo hafa menn sagt, og mig langar til þess að spyrja hv. þingmann að því, að Seðlabankinn sé einn á vaktinni gagnvart verðbólgunni. Nú er það svo varðandi þessa sölu og ráðstöfun fjárins að það er eingöngu 2,5 milljörðum af 66,7 ráðstafað á næstu tveimur árum. Restin fer í að greiða niður erlendar skuldir en líka að stórum hluta innlendar skuldir og verður lögð inn hjá Seðlabankanum til frystingar. Er nokkurs staðar önnur aðgerð sem stendur eins mikið gegn þenslu og verðbólgu? Það er líklegt að afgangur á ríkissjóði verði ekki 10 milljarðar, eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir þetta ár, heldur 98 milljarðar, 9–10% af þjóðarframleiðslu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki nokkurt land í heiminum sem hafi einhvern tíma skilað öðrum eins afgangi á ríkissjóði og hvort ríkisstjórnin sé ekki komin við hliðina á Seðlabankanum í því að standa vörð um verðbólguna en láti hann ekki einan um það.