132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:07]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt. Hið fyrra varðar samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar fram hjá þinginu. Það er ósköp einfaldlega þannig að samkvæmt vegalögum, sem nú heita væntanlega lög um samræmda samgönguáætlun, er gert ráð fyrir ákveðnu vinnuferli þegar samgönguframkvæmdir eru ákvarðaðar. Það gengur út á að samgönguráðherra undirbýr tillögu, ramma, leggur fyrir þingið og þingið ákveður sjálft þær framkvæmdir sem ráðist er í á grundvelli rammans. En hér ákveður ríkisstjórnin sjálf í hvaða vegarspotta nákvæmlega hve margar krónur skuli fara. Þarna er gengið lengra en nokkru sinni fyrr í því að ýta hinu lögbundna vinnuferli til hliðar og að ýta til hliðar hlutverki nefnda þingsins eins og fjárlaganefnd sem gerð er að eins og hverjum öðrum brandara aftur og aftur með slíkum vinnubrögðum, fær að telja baunir frá því í september og fram að jólum, en stóru fjárhæðirnar ákveður ríkisstjórnin á hnjám sér. Og stóru samgönguframkvæmdirnar núna og á næstu árum verða með þessum hætti ákvarðaðar fram hjá því vinnuferli og vinnulagi sem lög um samræmda samgönguáætlun gera nú ráð fyrir, sem ætla m.a. þinginu, samgöngunefnd og þingmannahópum kjördæmanna það hlutverk sem ríkisstjórnin tekur þarna að sér. Sú var tíðin að bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn gagnrýndu ríkisstjórnir sem þá sátu fyrir að gera einmitt nákvæmlega þetta.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir svo um að það sé alveg einstaklega ábyrgt af ríkisstjórninni að taka ekki alla símapeningana og nota þá strax og þetta sé alveg heimsmet í ábyrgð, þá segi ég nú bara: Þakka skyldi það. Á að fara að hrósa ríkisstjórninni sérstaklega fyrir það að selja Símann og nota ekki alla peningana í hvelli í þenslunni? Bíddu, er það ekki ríkisstjórnin sem er gerandinn með því að selja Símann? Skárra væri það nú þó að hún biti ekki höfuðið af skömminni með því að taka alla peningana og nota þá í hvelli á meðan eldarnir loga sem glaðast í hagkerfinu. Mér finnst það ekki mikið til að hrósa sér af. Þá er hv. þingmaður búinn að gefa sér þá forsendu fyrir fram (Forseti hringir.) að það verði að selja Símann á þessum tímapunkti.