132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:13]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Sala Símans á auðvitað snúast um fjarskipti en það frumvarp sem við ræðum hér um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans snýst um áróður og í rauninni mjög ómerkilegan áróður. Ég er hissa á því að stjórnarflokkarnir skuli bera þvílíkt og annað eins á borð og ætlast til að fólk trúi þessu. Það ekki aðeins verið að ráðstafa fé á þessu kjörtímabili eða því næsta heldur líka á þar næsta kjörtímabili. Þetta er með ólíkindum og það er ætlast til þess að fólk gleypi þetta hrátt. Mér finnst þetta vera mjög undarlegt. Hvers vegna er ríkisstjórnin með þetta ómerkilega áróðursplagg sem flestir ættu að sjá í gegnum? Ástæðan er auðvitað sú að hér er um mjög óvinsælt mál að ræða, að selja Símann með grunnnetinu sem hugnast almenningi í landinu ekki og þess vegna er búið til eitthvert ómerkilegt áróðursplagg sem kallast frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands.

Þetta frumvarp er lítil vegáætlun, lítil heilbrigðisáætlun, lítillega fjallað um Landhelgisgæsluna og nýsköpun. En við sem höfum fylgst með vegáætlun vitum að það er ekkert að marka hana. Ríkisstjórnin hefur margoft boðað sömu framkvæmdirnar og koma fram í þessu frumvarpi, svo sem Suðurstrandarveg og ég man ekki betur en búið sé að lofa honum fjórum sinnum. En nú allt í einu á að lofa honum enn og aftur og veita í hann fé og það er sett í tengslum við söluna á Símanum. Þetta er ómerkilegt. Ég held að allir ættu að taka undir að það er mjög ómerkilegt að bera þetta á borð og ég er alveg hissa á því að stjórnarflokkunum detti þetta í hug og ætlist til að fólk gleypi þetta hrátt. En auðvitað á þetta að snúast um fjarskipti en ekki vegáætlun eða heilbrigðismál.

Sá alvarlegi hlutur sem ríkisstjórnin gerði var að selja Símann með grunnnetinu og það er einmitt það sem við í Frjálslynda flokknum vildum alls ekki. Og hvers vegna ekki? Vegna þess að reynslan erlendis frá er ekki góð. Þetta var gert í sumar í Bretlandi og um reynslu Breta á hvernig ástandið var og er þar mátti lesa í Financial Times. Þegar farið er að skoða málin þar kemur upp úr dúrnum að hagnaður þeirra símafyrirtækja sem voru seld með grunnnetinu er gífurlegur og hann er mjög óeðlilegur og ekki nóg með það, þá ráða eftirlitsstofnanir ekki við að veita þessum stóru fyrirtækjum aðhald. Það er ekki einungis að neytendur séu látnir blæða heldur hefur þetta komið í veg fyrir að önnur fyrirtæki geti þrifist í samkeppni við stóru fyrirtækin sem ráða yfir grunnlínunni. Þannig hafa stóru símafyrirtækin einokunarstöðu á þeim sviðum gagnvart öðrum fyrirtækjunum í samkeppninni og það er alvarlegt. Þetta er einmitt það sem við í Frjálslynda flokknum höfum varað við. Það er vert að þingmenn fari nú yfir nefndarálitið sem lá fyrir þegar salan á Símanum var samþykkt vorið 2001. Í því nefndaráliti, sem hv. þáverandi formaður samgöngunefndar Árni Johnsen skrifaði, kemur fram að til þess að eftirlitið yrði virkt þyrfti að bæta við 2–3 störfum hjá Samkeppnisstofnun og síðan hjá Póst- og fjarskiptastofnun. (Gripið fram í: Það er búið að því.) Ja, ég veit ekki til þess að það hafi verið gert vegna þess að þau mál sem hafa heyrt undir þessar ákveðnu stofnanir til að fylgja eftir eftirliti á sviði fjarskiptamála, þar hefur biðtíminn eftir úrskurði verið gríðarlangur. Þetta ættu menn að hafa í huga áður en þeir fara að koma á einokunaraðstöðu einkafyrirtækis; að fara yfir þau mál og reyna að greiða úr þeim deiluefnum um samkeppnismál sem uppi hafa verið, en sú virðist ekki vera raunin.

Síðan er auðvitað í framhaldi af því um að ræða mjög misvísandi skilaboð. Við sjáum að ríkisstjórnin þykist vera að boða aðhald með því að draga úr vegafé um 1 milljarð. Síðan kemur aftur vegafé í gegnum Símann. Það er í rauninni mjög erfitt að átta sig á því hvað menn eru að fara með svona umræðum, í þjóðhagslegu tilliti. Það er verið að skera niður og bæta í á sama árinu. Þetta er mjög undarlegt.

Það skiptir einnig máli að fara yfir þessa 2,5 milljarða vegna þess að ég vil að við höldum okkur við fjarskipti, ekki fara að tala um heilbrigðismál og eitt og annað sem kemur fram í þessu máli sem er hreinn áróður. Það væri fróðlegt að fá að heyra hvernig menn ætla að ráðstafa þessum 2,5 milljörðum í fjarskiptasjóði. Er þetta hugsað sem afsláttur fyrir Landssímann eða ætla menn að byggja upp eitthvert mínígrunnlínunet sem allir eiga jafnan aðgang að? Menn hljóta að hafa hugsað það mjög djúpt hvernig á að ráðstafa fénu, milljarði núna og síðan 500 millj. á hverju ári allt til ársins 2009. Menn hljóta að hafa haft einhverja áætlun nema þá auðvitað að þetta sé hreinn áróður, sem ég reikna þó með. En mér finnst að menn ættu að útskýra hvað liggur að baki vegna þess að það er mjög aðkallandi að greiða úr ákveðnum fjarskiptamálum á landsbyggðinni. Við sem förum mikið um vegi landsins þekkjum það að þegar Landssíminn varð hlutafélag þá gerðust mjög undarlegir hlutir, þá dró úr allri GSM-uppbyggingu og það nær stöðvaðist að bæta við sendum á landsbyggðinni. Það væri því mjög fróðlegt að menn gerðu grein fyrir því hvernig þessum 2,5 milljörðum verði varið því menn eru greinilega búnir að hugsa mjög langt og marga leiki fram í tímann, jafnvel til ársins 2009. Í því sambandi er t.d. mjög aðkallandi að bæta ljósleiðarasamband á Vestfjörðum en þar virðast æ ofan í æ verða truflanir og það liggur mjög á að hringtengja ljósleiðarann á Vestfjörðum. Þess vegna væri æskilegt að menn gerðu lítillega grein fyrir því hvernig enn ætla að tryggja aðgang allra að þeirri uppbyggingu sem menn ætla sér allt til ársins 2009.

Það er vert að rifja upp í þessu máli að það snýst um fjarskipti og um samkeppni á þeim markaði í framtíðinni og við höfum varað mjög við því að með sölu grunnnetsins verði einmitt komið í veg fyrir samkeppni vegna þess að það er ljóst að menn standa ekki jafnfætis á markaðnum. En Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa haft mjög litlar áhyggjur af því hvort menn stæðu jafnfætis. Það má t.d. rifja upp svör sem fyrrum fjármálaráðherra og núverandi hæstv. utanríkisráðherra gaf varðandi það en þá virtist sem engu máli skipti hvort Landssíminn færi að samkeppnislögum og hvort hann hefði haft rétt við varðandi samkeppni við þau fyrirtæki sem voru á þeim markaði.

Það má kannski líta svo á að þetta áróðursplagg sem og sala Landssímans með grunnnetinu lýsi því og festi í sessi að menn hafi e.t.v. engan áhuga á samkeppni á þessum markaði. Þá er einfaldlega réttast að menn segi bara þannig frá og tali hreint út um hlutina.

Ég vil enn og aftur og ljúka ræðu minni á því að lýsa því yfir að það er fáheyrt að lofa fjármagni ekki bara á þessu kjörtímabili og því næsta heldur nokkur kjörtímabil fram í tímann. Það sjá allir.