132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að salan á Símanum hafi tekist að mörgu leyti vel. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar að ekki hefði átt að selja dreifikerfið. Það var tekin ákvörðun um það af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að verðið fyrir Símann hafi verið giska gott og ég tel líka að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið mið af margvíslegri gagnrýni sem kom fram á fyrri einkavæðingargerninga hennar og þessi sala hafi verið gegnsærri en hinar.

Við hv. þm. Magnús Stefánsson vil ég segja þetta: Ræða þín skal vera já, já og nei, nei. Hv. þingmaður kemur hingað og spyr okkur þingmenn hvort við teljum að reisa hefði átt hátæknisjúkrahúsið einhvers staðar annars staðar. Annars staðar hvar? Hv. þingmaður hefur ekki kjark til þess að segja hvar annars staðar hann er að ræða um. Er það kannski innlegg í kosningabaráttu Framsóknarflokksins í Reykjavík að leggja til að það eigi að taka þetta hátæknisjúkrahús sem verið hefur á Reykjavíkursvæðinu og flytja það eitthvert annað? Er það svo? Hv. þingmaður þarf að upplýsa það fyrir okkur til þess að við getum svarað spurningu hans.

Ég vil svo segja það, frú forseti, að ég er ánægður með ýmislegt í áformum ríkisstjórnarinnar um að verja þessum peningum. Ég er ánægður með að geðfatlaðir skuli fá milljarð. Ég spyr hins vegar hv. þingmann: Hvernig stendur á því að aldraðir eru algerlega settir hjá í þessu? Við vitum að nú er fram undan nauðsyn á mikilli uppbyggingu dvalarheimila aldraðra og hjúkrunarheimila. Hvernig stendur á því að ekkert er tekið á því í þessu máli? Telur hv. þingmaður, og virðulegur formaður fjárlaganefndar, að það komi til greina í umfjöllun þingsins að skoða breytingar á frumvarpinu eða þingmálinu með þeim hætti að gert verði ráð fyrir fjármagni til þess að byggja upp (Forseti hringir.) t.d. hjúkrunarheimili aldraðra á næstu árum?