132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:45]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um staðsetningu sjúkrahússins. Mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem er oft mjög frjór í hugsun, seilast heldur langt, að ég sé með einhver plott eða leikfléttur um það mál. Ég er einfaldlega að velta því fyrir mér af praktískum ástæðum hvort Hringbrautin sé besta staðsetningin fyrir þjóðarsjúkrahús. Ég leyfi mér að efast um það. Það hlýtur líka að vera praktískt út frá starfsemi svona stórs sjúkrahúss til framtíðar að það sé hannað frá grunni í staðinn fyrir að það sé verið að sauma það við eldri byggingar. Það er fyrst og fremst þetta. Allt varðandi einhverjar kosningar í framtíðinni, það er bara eitthvað sem hv. þingmaður hefur fundið í sínu hugskoti.

Varðandi annað sem hann nefndi um aldraðra vísa ég til svars hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag í þessari umræðu þar sem hann benti m.a. á að það er unnið að ákveðinni áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Hann fór yfir það og ég veit að hv. þingmaður var hér viðstaddur þegar sú umræða fór fram og vísa ég til þess.