132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:11]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ákaflega ánægjulegt tilefni sem við höfum hér til þess að ræða eitt lítið lagafrumvarp með stóru og miklu innihaldi. Við erum að ræða hér um ráðstöfun söluandvirðis af Landssíma Íslands hf. og það er auðvitað afskaplega ánægjulegt tilefni. Þetta er einkavæðing, stór og mikil einkavæðing, sem skilar sér vel til íbúa landsins og við eigum að vera hreykin af því, og við megum vera hreykin af því, í tilefni af orðum hv. síðasta ræðumanns. Það hefur tekist afskaplega vel til með þessa einkavæðingu og vel var að henni staðið, þess vegna getum við verið mjög ánægð með að geta flutt þetta frumvarp nú.

Auðvitað er nauðsynlegt að leggja strax línur um hvernig við ætlum að ráðstafa þessu fé. Hæstv. forseti. Hér er farin ný leið í því hvernig við förum að við þessa ráðstöfun. Hér er farin ný leið, við erum að lögbinda ráðstöfun á þessu tiltekna fé. Við þekkjum það að til eru lögbundin framlög í ýmsum lögum sem eru síðan tekin inn í fjárlög og það er rétt að taka það sérstaklega fram, og hefur komið hér fram í umræðunni, að á fjárlögum hvers árs er gert ráð fyrir þessu fé. Þrátt fyrir að hér skuli vera lagafrumvarp, sem vonandi verður að lögum fljótlega, þarf að gera ráð fyrir því í fjárlögum hvers árs og reyndar er gert ráð fyrir því í fjáraukalögum þessa árs að þessi ráðstöfun komi þar inn hvað varðar árið í ár.

Við þekkjum líka að á Alþingi eru samþykktar þingsályktunartillögur um samgönguáætlanir, landgræðsluáætlun, skógræktaráætlun og fleira þannig svo kannski má segja að hér sé brotið í blað að það skuli vera gert með þessum hætti en ég er jafnframt sannfærð um að það var algerlega nauðsynlegt að leggja mjög skýrar línur um hvernig þetta skyldi gert. Samkvæmt fjárreiðulögum er söluandvirðið allt bókfært á þessu ári og því verður mikill eða má eiginlega segja allsvakalegur afgangur af ríkissjóði í ár, árið 2005, og því er enn frekar mikil nauðsyn á að binda í lagafrumvarp hvernig við ætlum að ráðstafa söluandvirðinu og gera grein fyrir hvernig því verður varið.

Með þessu frumvarpi er líka hægt að afgreiða það fé sem við fáum inn í ríkissjóð með þessari einkavæðingu frá venjulegu veltufé ríkissjóðs. Þarna kemur líka fram meginstefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, við viljum að hér ríki stöðugleiki og ef ég má vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þá segir þar, með leyfi forseta:

„Að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með því skapast skilyrði til enn frekari vaxtar þjóðartekna og aukins kaupmáttar almennings. Jafnframt er stöðugleiki í efnahagsmálum forsenda aukinnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.“

Af öllum þessum orsökum er að mínu mati mjög nauðsynlegt að í lagafrumvarpinu komi fram hvernig söluandvirðinu verði varið og þá í fyrsta lagi að þetta fé mun ekki koma inn í efnahagslífið nema að litlum hluta í ár, 2,5 milljarðar, annars vegar í undirbúning á uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss og hins vegar í fjarskiptasjóð Nýsköpunarsjóðs og síðan 200 millj. til uppbyggingar á þjónustu- og búsetuúrræðum fyrir geðfatlaða. Það er sem sagt þannig að af söluandvirðinu í heild, rúmum 66 milljörðum, fara 43 milljarðar til að styrkja innviði samfélagsins. Þar er auðvitað horft til ýmissa átta, það er horft til heilbrigðiskerfisins, rannsóknar- og þróunarstarfs og frumkvöðlastarfs og að treysta undirstöðu byggðar í landinu með samgöngubótum og jöfnu aðgengi landsmanna að fjarskiptum. Ég tel skipta alveg gífurlega miklu máli þegar við horfum til byggðamála að þarna er nú þegar hægt að grípa til ráðstafana hvað það varðar að jafna aðgengi landsmanna að fjarskiptum, hvort sem eru háhraðatengingar, stafrænt sjónvarp eða GSM-væðing landsins. Svo skiptir auðvitað miklu máli að við gerum ráð fyrir að erlendar skuldir verði greiddar niður sem hefur þau áhrif að í framtíðinni minnkar endurgreiðslubyrði og vaxtabyrði ríkissjóðs og þegar á þessu ári er gert ráð fyrir að hreinar erlendar skuldir ríkisins nemi einungis 79 millj. kr. Enn og aftur, allt er þetta gert til að eyða óvissunni, að menn hafi stefnuna fyrir framan sig í efnahagsmálum, menn viti það hver stefna Alþingis er varðandi það hvernig fénu verði ráðstafað.

Ef horft er til þess hvaða einstök mál eru efst á baugi þá skiptir auðvitað miklu máli að nú er ráðist í vegaframkvæmdir upp á 15 milljarða til viðbótar því sem áður er gert ráð fyrir með því að 8 milljörðum kr. verði varið til gerðar Sundabrautarinnar. Þarna er um mikla og mjög nauðsynlega samgöngubót að ræða hvort sem er fyrir höfuðborgarsvæðið eða landsbyggðina. Þetta er tenging inn til höfuðborgarinnar sem mun skila sér til allra og þá skiptir ekki máli hvort menn horfa til höfuðborgar eða landsbyggðar eins og auðvitað má segja um allar góðar samgönguframkvæmdir. Ég vil setja þessa framkvæmd mjög hátt á þann lista sem hér er upp talinn og ég ætla ekki að fara í, í einstökum atriðum en get þó ekki gert að því að mig langar til að nefna sérstaklega að nú verði séð fyrir endann á uppbyggingu vega til Vestfjarða og á norðausturhorninu. Norðausturvegur fær t.d. 1,5 milljarða og með þeim fjármunum er séð fyrir endann á því að klára vegasamgöngur til Þórshafnar og Raufarhafnar. Það hefur oft og tíðum verið okkur þingmönnum Norðausturkjördæmis mikið áhyggjuefni hvernig ætti að sjá fyrir endann á þeirri stóru, miklu og mikilvægu framkvæmd og auk þess að tengja Vopnafjörð inn á hringveginn. Þetta er stórmál fyrir þessar byggðir ef þær eiga að fá að lifa, dafna og vaxa til framtíðar. Ég vil geta þessa sérstaklega því fyrir utan þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Vestfjörðum, en þar á nákvæmlega það sama við, þá er þarna er um mikið byggðamál að ræða sem er nauðsynlegt fyrir þessar byggðir.

Þetta vildi ég segja varðandi vegamálin, hæstv. forseti. Eins og aðrir fagna ég auðvitað byggingu hátæknisjúkrahúss og að við skulum sjá áform um varðskip fyrir Landhelgisgæsluna. Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða eru á líka dagskrá en mikil nauðsyn var að ráðast í þau og því fagna ég.

Síðan er það auðvitað ánægjulegt að við sjáum fram á að hægt verði að halda sérstaklega upp á afmæli Háskóla Íslands með nýbyggingu fyrir stofnun íslenskra fræða. Ég tel mjög vel við hæfi að ráðist skuli í það af þessu tilefni því þá eru liðin 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands og 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Það er einmitt í slíkum tilfellum sem við sem þjóð viljum standa vel að svona sérstökum átaksverkefnum. Þarna gefst sérstakt tækifæri og við sjáum fram á að geta staðið að því með myndarbrag.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég víkja aðeins að fjarskiptaáætluninni. Hér er lagt til að verja 2,5 milljörðum kr. til uppbyggingar í samræmi við fjarskiptaáætlun sem liggur fyrir og við höfum alltaf rætt það á þeim forsendum að þegar kæmi til einkavæðingar Landssímans mundi vera hægt að ráðast í þær framkvæmdir. Landssíminn er auðvitað fyrirtæki á samkeppnismarkaði og þess vegna hefur ekki verið hægt að skikka hann í ákveðin verkefni. Það er nauðsynlegt að ráðast í verkefni til að sinna dreifðari byggðum landsins þar sem dreifing á síma og háhraðaneti er kannski ekki ábatasöm. En samkvæmt fjarskiptaáætlun er ákveðið að ráðast í það nú sem er auðvitað nauðsynlegt til þess að standa vel að byggðamálum. Síðan er gert ráð fyrir því að stuðla að aukinni útbreiðslu GSM-farsímanetsins í fyrsta lagi við hringveginn og í öðru lagi helstu stofnvegi. Við megum ekki gleyma því, hæstv. forseti, að hér er verið að tala um alla helstu stofnvegi og fjölfarna ferðamannastaði sem auðvitað skiptir mjög miklu máli hvað varðar ferðaþjónustuna. Það er auðvitað svo að fólk er almennt farið að líta á GSM-símann sem öryggistæki og af þeim ástæðum er mjög nauðsynlegt að ráðast í þetta. Við þekkjum það sem ferðumst mikið yfir heiðar og fjöll að þar hittir maður oft fyrir fólk sem ekki hefur gert ráð fyrir því að það sé ekki GSM-samband á öllu þjóðvegakerfinu. Og bæði með tilliti til þess hvað notkun á GSM-símanum er orðin almenn og með tilliti til erlendra ferðamanna þá er algerlega nauðsynlegt að ráðast í þetta.

Síðan er það dreifing stafræns sjónvarps. Það er auðvitað nauðsynlegt að tryggja sjófarendum og íbúum í strjálbýli aðgang að stafrænu sjónvarpi og nútíminn kallar eftir því hvar sem er á landinu að hægt sé að ná í þá þjónustu.

Að síðustu vildi ég nefna uppbyggingu á háhraðatengingunni á þeim svæðum sem ekki er líklegt að verði þjónað á markaðslegum forsendum. Eins og komið hefur fram í umræðunni er gert ráð fyrir að fjarskiptasjóður verði að veruleika og að hann muni sinna því að hægt verði að koma á háhraðatengingum og hér hefur aðeins verið í umræðunni hvernig staðið verður að því. Eins og ég hef skilið málið, þá mun sú þjónusta verða boðin út með nákvæmlega sama hætti og flugleiðir eru boðnar út eða ferjusiglingar og landsamgöngur, þetta er mjög algengt í samgöngumálum. Þess vegna er þá eðlilegt í þessu tilfelli líka, til þess að ná fram markmiðum stjórnvalda um útbreiðsluna á GSM-símanum og á háhraðatengingunum, að þjónustan verði boðin út og að hægt verði að bregðast við því með fjarskiptasjóði. Þarfagreining um hvar slíkrar þjónustu sé þörf þarf auðvitað að liggja fyrir og hvar markaðslegar forsendur séu ekki fyrir því að hún verði veitt með öðru móti, þannig að ég held að hér sé staðið mjög eðlilega að verki og þetta munum við auðvitað sjá þegar samgönguráðherra leggur fram sérstakt frumvarp um stofnun fjarskiptasjóðs.

Hæstv. forseti. Ég held að við megum fagna því sérstaklega að einkavæðing Símans hefur tekist mjög vel. Þarna er staðið vel að verki. Við sjáum fram á verkefni sem verða að veruleika mun fyrr en við höfum gert ráð fyrir áður vegna þess að við höfum þessa fjármuni til ráðstöfunar og þetta eru allt verkefni sem munu styrkja innviði samfélagsins.