132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:32]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hörð á þeirri skoðun minni að ákaflega vel hafi tekist til við einkavæðingu Símans, bæði út frá mælikvarða peninganna en einnig út frá því að sett voru ákveðin skilyrði í söluferlinu sem þau fyrirtæki undirgengust sem keyptu.

Það er eðlilegt að menn hafi áhyggjur af því að dreifbýlinu verði ekki þjónað nægilega vel. Til þess er einmitt fjarskiptasjóður. Við höfum þau markmið að þjóna dreifbýlinu vel. Það eru markmiðin sem sett eru fram í okkar áætlunum, eins og komið hefur fram í stefnuyfirlýsingum. Fjarskiptasjóðurinn er settur á til þess að hægt sé að bjóða út þá þjónustu, að við getum staðið vel að því að veita þjónustu um landið. Ég á ekki von á öðru en að þar takist vel til.

Hv. þingmaður nefndi einnig tæknimálin, að þau eru alltaf að breytast. Tækninni fleygir stöðugt fram og ný tækni er að verða til sem ég held að geri ekki annað en að hjálpa til við að þjóna landsbyggðinni. Ef það gerist ekki á markaðslegum forsendum þá höfum við fjarskiptasjóðinn til þess að leysa úr þeim málum.