132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:34]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki þess umkomin að dæma um hve vel þessi fjarskiptasjóður dugir en vonandi dugir hann vel og lengi.

Ég get ekki látið hjá líða, af því að hv. þingmaður minntist á fé til vegaframkvæmda, að minnast á hvernig því fé sem á að verja í vegaframkvæmdir á landinu er varið. Þar er notuð sú aðferð að setja 1,5 milljarða kr. í hvert dreifbýliskjördæmanna fyrir sig alveg, burt séð frá því hversu mikil þörfin er í viðkomandi kjördæmum.

Ég minni á að á Vestfjörðum er langmest eftir í vegaframkvæmdum og dýrustu vegaframkvæmdirnar. Þar sem hæstv. ríkisstjórn er nú örlát og á svo mikinn pening til að spila út fyrir hönd landsmanna allra þá hefði ekki verið úr vegi að leggja aðeins meiri vinnu í að meta þörfina á vegaframkvæmdum en nú er gert. Á norðvesturhorninu er vissulega mikil þörf fyrir framkvæmdir en Vestfirðirnir skera sig algjörlega úr og þar hefði virkilega (Forseti hringir.) verið ástæða til að veita (Forseti hringir.) miklu meira fé en gert er.