132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég hlýddi á ræðu hv. þingmanns hélt ég að ég væri staddur í miðri byggðaáætlun. En svo var ekki heldur var mikill fögnuður, mikill árangur og engar áhyggjur. En í andsvörum eru komnar eðlilegar áhyggjur og ekki jafnmikill fögnuður þegar hv. þingmaður var spurður um landsbyggðina.

Ég get upplýst hv. þingmann um að það ríkir ekki sérstakur fögnuður með sölu Símans á Siglufirði og Blönduósi. Í máli hv. þingmanns kom fram að fjarskiptasjóður ætti að leysa öll vandamál á landsbyggðinni. Þess vegna langar mig að fá upplýsingar um það hjá formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins hvort fjarskiptasjóður eigi að leysa að einhverju leyti þau mál sem komið hafa upp á Siglufirði. Þar var þremur mönnum sagt upp. Kemur til greina að veitt verði fé úr fjarskiptasjóði, af þessum 1.000 millj. kr. sem áttu öllu að redda á landsbyggðinni þannig að menn þyrftu engar áhyggjur að hafa vegna einkavæðingar Símans?

Fólk hefur áhyggjur. Það er ekki einungis út af þeim störfum sem talin hafa verið upp í umræðunni, þessum fimm störfum, heldur einnig vegna framtíðarstefnu Símans. Menn óttast að með þessum uppsögnum hafi tónninn verið sleginn. Það er mikil óánægja með að í sömu andrá og Síminn var einkavæddur hafi fólki verið sagt upp á landsbyggðinni. Eiga þessar 1.000 millj. kr. að ganga í að greiða fyrir því að störfin verði áfram unnin á viðkomandi stöðum? Það væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hv. þingmanni.