132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:41]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Nú eigum við að gæta að því í umræðunni að ekki megi ræða um Símann eins og hann er núna og starfsmannastefnu hans vegna þess að hann er svo mikið einkafyrirtæki. En á Norðurlandi er annað fyrirtæki sem stjórnarliðar hafa verið að ræða um í sömu viku. Það er skipasmíðastöð á Akureyri. Menn hafa tjáð sig um að hana verði að endurreisa. Það er því sitt hvað sem gildir í þessari umræðu.

Fólk hefur áhyggjur. Mér finnst að fyrst að salan hefur gengið svo ákaflega vel fyrir sig og menn eru svona stoltir ættu menn að gera betur grein fyrir því hvernig mál muni þróast á landsbyggðinni. Mundi hv. þingmaður styðja það að Landssíminn gerði að einhverju leyti grein fyrir stefnu sinni. Hv. þingmaður hefur rætt um málið eins og um sé að ræða eitthvert byggðamál þegar fólkið á landsbyggðinni skynjar það (Forseti hringir.) með allt öðrum hætti, frú forseti.