132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:42]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að allir íbúar landsins hafi greiðan aðgang að fjarskiptaþjónustu og rafrænum samskiptum.

Segja má að fjarskipta- og upplýsingatækni hafi skapað forsendur til að íbúar í öllum landshlutum gætu sótt sér menntun og ekki síður uppbyggingu á atvinnukostum. Ýmsir atvinnukostir hafa skapast við almennilega uppbyggingu á fjarskiptum og þar sjáum við mikla möguleika fram undan, bæði hvað varðar fjarvinnu og ekki síður í því að samkeppnisstaða fyrirtækja sem fyrir eru mun batna gagnvart öðrum fyrirtækjum í landinu.

Það er auðvitað þannig (Forseti hringir.) að fyrirtæki og atvinnulífið reiðir sig (Forseti hringir.) á upplýsingatækni, sem við verðum að byggja upp á landsbyggðinni.