132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:45]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er verið að taka á nokkrum ágætum verkefnum og við erum sammála um það, heyri ég, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og ég, að þetta eru góð verkefni, góð og öflug verkefni sem skipta okkur mjög miklu máli. Og við erum þá ekki að taka út úr fjárlögunum á hverju ári hvað varðar þau verkefni, því að eins og hann sagði hafa fyrirheit verið gefin um mörg af þessum verkefnum. Það er hægt að ráðast í þau fyrr en ella, það er hægt að undirbúa þau betur en ella af því að nú vita menn að þessir fjármunir eru til reiðu.

Hann spyr sérstaklega um átak í málefnum aldraðra. Það er alveg ljóst að mikil og vaxandi þörf er á því að byggja upp hjúkrunaraðstöðu fyrir aldraða sem auðvitað kemur. Á því er verið að taka á hverju ári, áætlanir eru hjá heilbrigðisráðherra um það efni. Það er ekki eins og við séum að slaufa hér öllum fjárlögum. Við erum að vinna hér að mörgum góðum málefnum fyrir utan þau ákveðnu verkefni sem við erum að takast á við núna af því að við höfum þetta tækifæri sem skapast við sölu Landssímans.

Ég lít svo á að við séum jafnt og þétt að takast á við það verkefni að leysa úr þörfinni, og ég samþykki að hún er víða brýn, hvað varðar hjúkrunarheimili fyrir aldraða og þess sjást auðvitað merki í fjárlögum.