132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:47]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleðst yfir því að hv. þingmaður tekur undir það með mér að brýn þörf er á því að setja meira fjármagn í að byggja upp hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Hv. þingmaður vísar til þess að áætlanir séu í gangi til þess að mæta þessari brýnu þörf. Það er bara rangt. Þegar við skoðum fjárlögin og berum síðan saman við þær áætlanir sem liggja fyrir í fórum hæstv. heilbirgðisráðherra kemur í ljós að það vantar mikið upp á.

Staðreyndin er þessi: Aldraðir gleymdust. Ég held ekki að þingmönnum Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins sé eitthvað sérstaklega illa við aldraða. Þeir bara gleymdu öldruðum, þetta voru mistök. Ég held að aldraðir gjaldi þess að þeir eiga engan almennilegan málsvara í þessum flokkum. Það er þess vegna sem ég ætla að spyrja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins: Telur hún ekki koma til mála að leiðrétta þetta í meðferð þingsins á þessu málefni?