132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Menn hafa komið nokkuð víða við í umræðunni og verð ég að játa að frá því að ég settist á þing man ég ekki eftir undarlegri umræðu í þingsal en um þetta mál. Allt er það góðra gjalda vert sem hér hefur verið imprað á. Hvort það sé rétt eða rangt að hluti Sundabrautar sé í einkaframkvæmd. Það er líka þess virði að ræða um Þverárfjallsveg, 200 millj. kr. framlag í hann árið 2007 og 100 millj. kr. árið 2008. Hið sama á við um Landhelgisgæsluna. Er gott eða slæmt að kaupa fjölnota varðskip eða á frekar að leigja það? Og formaður fjárlaganefndar veltir vöngum yfir því hvort heppilegt sé að hátæknisjúkrahús sé reist við Hringbrautina í Reykjavík. Þá hefur einn sérstakan áhuga á því að ræða um fjarskiptasjóð, hvaða hugmyndir liggja að baki honum, hvernig á að skipuleggja hann. Síðan eru það framkvæmdir í þágu geðfatlaðra og aldraðra og að sjálfsögðu nýbygging fyrir Stofnun íslenskra fræða, Árnastofnun. Hér kennir margra grasa.

Ég áfellist þá ekki fyrir að gleðjast, forsvarmenn aðskiljanlegrar starfsemi, sem eygja að fá hlutdeild í söluandvirði Símans. Ég áfellist ekki heldur alþingismenn sem vilja stuðla að því að þessir fjármunir verði notaðir á skynsamlegan og réttlátan hátt. En við megum ekki missa sjónar á því sem hér er að gerast, hinni pólitísku gjörð.

Hér er ríkisstjórnin og stjórnarmeirihluti að reyna að kaupa sér vinsældir. Það er verið að framkvæma mjög óvinsæla aðgerð, að selja frá þjóðinni Símann sem hefur fært ríkissjóði miklar tekjur á ári hverju. Nú á að búa svo um hnúta að það verði aðrir sem þar njóti góðs af. Í rauninni hafa sjónarmið okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði komið vel fram við þessa umræðu og af þeim sökum ekki ástæða til að halda langar ræður. Hins vegar er allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar með slíkum endemum og svo óheiðarlegur að þetta ferli má hreinlega ekki falla í gleymskunnar dá, það má ekki gerast.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sagði hér fyrir stundu að í markaðsvæddu samfélagi gengi ekki að reka stofnun eins og Símann í eigu ríkisins. Ég vil minna á að þegar haldið var út á þessa braut árið 1995 var viðtal við þáverandi samgönguráðherra þar sem hann talaði á allt annan veg.

Hann sagði í BSRB-tíðindum í september árið 1995, Halldór Blöndal, hæstv. þáverandi samgönguráðherra, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem er rekin eftir fjárlögum. Póstur og sími getur t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum þótt í smáu sé nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til þess að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur. Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Síðan er hæstv. þáverandi samgönguráðherra spurður hvort hann sé að tala um að stofnuninni verði breytt í hlutafélag í ríkiseign.

Hæstv. fyrrverandi ráðherra svarar eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Já, ég tel að það rekstrarform sé ákjósanlegt bæði fyrir ríkissjóð, neytendur og starfsmenn Pósts og síma.“

Reyndar segir þáverandi ráðherra einnig á þá leið að hvort sem við hugsum um Póst og síma sem stofnun eða fyrirtæki sé hann ein af stærstu rekstrareiningum landsins með sterka eiginfjárstöðu og flókinn og margbreytilegan rekstur.

Þessi orð komu mér í hug þegar ég hlustaði á hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, tala um hlutskipti þess fólks sem hefur verið að missa vinnuna á Blönduósi og Siglufirði, að sjálfsögðu sé það ekki hlutverk ríkisins að amast við þessu, við séum að tala um fyrirtæki á einkamarkaði. En hafa fyrirtæki á einkamarkaði, sérstaklega þegar þau eru rekstrareining af þeirri stærðargráðu sem Síminn er, enga samfélagslega ábyrgð? Hafa slík fyrirtæki enga samfélagslega ábyrgð? Ég spyr.

Tvenns konar rök hafa verið færð fyrir því að selja Símann. Annars vegar hafa menn sagt: Það er eðlilegt þegar samfélagið hefur byggt upp þjónustu á tilteknu sviði og hún er farin að ganga vel og skila sínu að þá séu fjármunir losaðir og færðir yfir í ný verkefni, nýja uppbyggingu sem komi til með að skila arði. Þetta er önnur röksemdin sem hefur verið færð fram fyrir sölu á Símanum. Hin röksemdin sem hefur verið færð fyrir sölu Símans er sú að á endanum muni þetta gagnast samfélaginu betur, koma til góða eigendum og notendum. Samkeppni á markaði muni skila þjóðinni árangri þegar til langs tíma er litið. Ég ætla að fara nokkrum orðum um báða þessa þætti.

Síminn var seldur fyrir 66,7 milljarða kr. Í fyrra greiddi Síminn í skatta um hálfan milljarð króna. Skatttekjur ríkisins af Símanum blikna hins vegar þegar arðgreiðslurnar eru annars vegar. Hann hefur verið gerður upp með rúmlega 2 milljarða kr. hagnaði undanfarin ár eftir skatta. Síminn hefur því skilað miklu í ríkissjóð, hann hefur greitt 30% arð af liðlega 7 milljarða kr. hlutafé að nafnvirði, sem gerði t.d. á síðasta ári 2.110 millj. kr. og af því fékk ríkið 99%. Á þessu ári námu arðgreiðslurnar rúmum 6 milljörðum eða 6.330 millj. kr., allt peningar sem runnu og renna í ríkissjóð.

En þetta segir ekki alla söguna. Það segir kannski enn meiri sögu að Síminn skilaði í rekstri í fyrra tæpum 7.400 millj. kr. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir voru nákvæmlega 7.381 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 6.800 millj. kr. Þarna er því geysileg fjármunamyndun á ferðinni og hrikalegt til þess að hugsa hvaða gullkvörn ríkisstjórnin er að selja frá þjóðinni. Það er skelfilegt að verða vitni að þeim viðbrögðum sem við höfum upplifað hér í dag, þessi samræmda gleðistund, þessi mikla gleði á ráðherrabekknum og hjá stjórnarliðinu þegar verið er að taka þessa gullkvörn frá þjóðinni.

Síðan aftur að röksemdinni um að færa peninga frá tilteknu þjónustusviði yfir í annað, þá er að sjálfsögðu ekki saman að jafna Símanum, sem skapar okkur arð og hagnað á hverju einasta ári annars vegar, og hins vegar sjúkrahúsi sem við komum til með að greiða til annaðhvort sem skattgreiðendur eða notendur, vonandi sem skattgreiðendur. Auðvitað skapar góð samfélagsþjónusta, þar með heilsugæsla og heilbrigðisþjónusta arð, hún styrkir innviði samfélagsins vissulega, en að bera þetta tvennt saman er fráleitt, aldeilis fráleitt. Þetta var um að færa fjármuni af einu sviði yfir á annað.

Hvað með samkeppnina? Kemur þetta til með að gagnast okkur sem notendum þegar fram líða stundir vegna þess að þjónustan verður betri? Staðreyndin er sú að um miðjan tíunda áratuginn, áður en Síminn var gerður að hlutafélagi, bauð hann upp á ódýrustu innanlandssamtöl í víðri veröld. Ekkert land í heiminum bauð upp á lægri símgjöld, ekkert. Það átti líka við um farsímana. Um þetta eru til ítarlegar rannsóknir. Síminn á Íslandi stóð í fremstu röð í heiminum.

Ég minnist þess að ég ræddi einhvern tíma við forsvarsmenn Símans sem höfðu verið í samstarfi við Norðurlandaþjóðirnar og aðrar þjóðir um uppbyggingu innan þessa geira. Þeir sögðu mér hvernig andrúmsloftið hefði breyst á samstarfsfundunum eftir að þessar stofnanir voru gerðar að hlutafélagi og markaðsvæddar. Í stað þess að menn kæmu saman til finna ráð til að styðja hvern annan voru allir komnir með hnífinn uppi í erminni. Nú voru menn orðnir samkeppnisaðilar, ekki samstarfsaðilar. Þetta er það sem er að breytast.

Forsenda þess hins vegar að samkeppni komi til með að færa okkur ávinning er sú að hún verði raunverulega fyrir hendi. Ég held að hér á landi stefni í besta falli í fákeppni ef ekki einokun, í besta falli í fákeppni. Það er mjög dýr samkeppni. Við yrðum að borga fyrir tvenns konar yfirbyggingu, auglýsingar og annað slíkt.

Skyldi einhver halda að kaupendur Símans séu í góðgerðastarfsemi? Skyldi einhver trúa því að menn hafi bara haft þessa 66,7 milljarða og nú sé lag að láta þá ganga inn í íslenskt samfélag til að styrkja innviði þess? Nei. Til að ná hverri einustu krónu til baka, öllum 66,7 milljörðunum, hverri einustu krónu. Og síðan hagnað þar ofan á á bilinu 15–30%. Hverjir skyldu eiga að borga fyrir það? Það erum við, það er að sjálfsögðu þjóðin, það eru notendur. Hafa fagnendurnir, húrrahrópendurnir hér í salnum hugsað út í þetta?

Svo ég víki aftur að fjarskiptasjóðnum þá eiga 2.500 milljónir að fara í hann þegar menn færa sig fram á árið 2009, þá verði það allt komið inn í sjóðinn. Halda menn ekki að þessi uppbygging verði til frambúðar? Henni lýkur aldrei vegna þess að tæknin heldur áfram að þróast. Það sem hins vegar gerist núna er að starfsemi, sem nú er eðlilegur þáttur af rekstri Símans og á að vera það og ætti að vera það, verður á herðum skattborgarans. Það er breytingin. Það eru sem sagt aðrir, nýir eigendur, sem eiga að fá arðinn, sem eiga að mala gullið en það er skattborgarinn sem á að greiða fyrir þetta. (Gripið fram í: Hvernig?) Hvernig? Hvernig skyldi skattborgarinn eiga að greiða fyrir þetta? Hann á að greiða fyrir þetta annaðhvort með beinum framlögum eða í gegnum neyslugjöld einhvers konar, það á hann að gera. (Gripið fram í.)

Það sem hefur verið gert í dag er að við höfum verið með þetta allt í samfélagslegri eign. Staðreyndin er sú að þegar litið er til baka og horft á Póst og síma á sínum tíma þá var það mjög gott fyrirkomulag. Það hentaði landsbyggðinni afar vel, þetta voru allsterkar litlar einingar á hverjum stað, Póstur og sími, og hugmyndir manna um að þessar stofnanir mundu fjarlægjast hvor aðra eða sú starfsemi sem er innan þeirra hefur ekki reynst vera rétt. Bréfið, símtalið og boðskiptin eru öll að renna saman í eitt. Þetta voru mjög heppilegar og góðar rekstrareiningar fyrir íslenskt umhverfi. Það sem gerðist þarna var að ágóði á einum stað færðist yfir á tap á öðrum. Sá sterki aðstoðaði hinn veikari. Þannig gerðist þetta.

Núna á hins vegar að taka ágóðann og færa hann í vasa nýrra eigenda. Allir segja: Þetta hlýtur að vera óskaplega gott vegna þess að samkeppnin verður svo stórkostleg. (Gripið fram í.) Jú, skatttekjurnar í fyrra voru hálfur milljarður. Ég las upp tölur áðan um hvernig skatttekjurnar eru aðeins agnarsmár hluti af því fjármagni sem runnið hefur inn í ríkissjóð í formi arðgreiðslna. Þess vegna ásælast fjárfestarnir að sjálfsögðu þessa dýrmætu eign. Það segir sig sjálft.

Ég sagði í upphafi máls míns að ekki væri þörf á að hafa um þetta langt mál því að þau sjónarmið sem við höfum sett fram hafi komið fram. Ég er hins vegar búinn að hafa lengra mál um þetta en ég ætlaði, og þá ekki síst til að leggja áherslu á að þetta ferli allt saman, óheiðarleikann í yfirlýsingum. Ég er ekki að víkja sérstaklega að — ég vitnaði í fyrrverandi. hæstv. samgönguráðherra, ég er ekki að tala um hann persónulega. Ég er að tala um ríkisstjórnir. Ég trúi því að hann hafi meint þetta á sínum tíma. Auðvitað geta komið upp aðstæður þar sem viðhorf manna breytast, ég er ekki að segja það. Ég er hins vegar að segja að formúlan er alltaf hin sama. Það er einkavætt og því er haldið fram og það staðhæft að til þess eins séu menn að gera þetta að viðkomandi starfsemi geti betur tekist á við vanda sem upp komi í umhverfinu, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra sem ég vitnaði til. En síðan í öllum tilvikum er hlaupið til og selt. Það gerist alltaf. Þetta eru ráðleggingar sem útsmognir spesíalistar og sérfræðingar í einkavæðingarfræðum hafa ráðlagt ríkisstjórnum, að fara varlega og hægt í sakirnar, leggja málin þannig upp að hér sé einvörðungu um að ræða formbreytingu, nauðsynlega formbreytingu, en það standi ekki til að ganga alla leið. Alltaf gerist það hins vegar að áfram er gengið ef — og það er hin mikilvæga forsenda — ef eignin gefur nýjum eigendum arð eða er líkleg til þess.