132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:10]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður staðhæfði að gamla formið, gamli Póstur og sími hefði hentað landsbyggðinni mjög vel.

Af því að hv. þingmaður rifjaði upp orð hæstv. samgönguráðherra, Halldórs Blöndals, á þeim tíma, 1995, að fara yrði í hlutafjárvæðingu á Símanum, vil ég rifja það upp að fyrst og fremst voru nú ekki önnur fyrirtæki á þeim tíma á markaði þannig að ekki var um samkeppnisumhverfi að ræða í því tilfelli.

En hins vegar vil ég rifja það upp líka að þegar við landsbyggðarþingmenn töluðum um jöfnun símkostnaðar sögðu einmitt embættismenn gamla Pósts og síma að það væri ekki hægt, það mætti ekki jafna símkostnað í landinu. Það væri á móti öllum reglum, það þyrfti að hafa þetta kostnaðarbundið. Það var sem sagt algjörlega ómögulegt að ná fram því réttlætismáli að jafna símkostnaðinn í landinu.

Það er rétt að nefna að það var ekki fyrr en með hlutafjárvæðingu Pósts og síma, þegar Landssíminn varð til, að hægt var að jafna símkostnaðinn í landinu. Það gerðist með þeim hætti, hæstv. forseti. Þarna var það algjörlega nauðsynlegt á byggðarlegum forsendum að hlutafjárvæða Símann því að öðruvísi var ekki hægt að ná þessu fram gegn öllum embættismönnum Pósts og síma sem lögðust á eitt um þá skoðun og man ég vel eftir öllum þeim slag að fá það sjálfsagða réttlætismál að hafa sömu gjaldskrá í landinu öllu hvað varðar símann.

Gaman væri að heyra sjónarmið hv. þingmanns (Forseti hringir.) að þessu leyti, hvort þetta var ekki (Forseti hringir.) nauðsynleg ráðstöfun á sínum tíma.