132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það nú fremur slakt að ætla að kenna embættismönnum Símans um það sem úrskeiðis hefur farið. Það sem hins vegar hefur verið að gerast í seinni tíð er að samkvæmt markaðsvæðingarhugsuninni hafa menn verið að hneigjast til þess að skilgreina alla verkþætti á grundvelli kostnaðar. Þetta var að gerast á tíunda áratugnum, það var því við ramman reip að draga gagnvart þeirri hugsun og þetta er náttúrlega sú hugsun sem við þekkjum innan Evrópusambandsins, undanfari markaðsvæðingarinnar.

Hins vegar ef fyrir því hefði verið pólitískur vilji og engar alþjóðlegar skuldbindingar staðið í vegi fyrir því þá skal nú enginn sannfæra mig um annað en að þeir ráðamenn sem réðu yfir Símanum hefðu getað fengið þessu framgengt. Þetta er hlutur sem ég mundi vilja kanna nánar en ég hef ekki trú á öðru en að pólitískur vilji hefði þarna náð fram að ganga ef hann hefði verið fyrir hendi. Mér finnst slakt að ætla að kenna embættismönnum þarna um.

Varðandi gamla formið á Pósti og síma stend ég við það. Ég tel að það hafi verið mjög hentugt form, hentað okkur vel. Síðan þekkja það náttúrlega allir sem reka héraðsblöð, félagstímarit og annað af því tagi hvað einkavæðing og markaðsvæðing póstþjónustunnar hefur haft í för með sér fyrir þá aðila.