132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að rekstur ríkisfyrirtækja sé stundum þunglamalegur og stundum ekki. Stundum er rekstur einkafyrirtækja þunglamalegur, stundum ekki. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir setti þetta hins vegar fram sem lögmál. Ég held að það sé afskaplega vafasamt. Ef við tölum á þeim nótum getum við ekki vænst þess að komast að skynsamlegum niðurstöðum. Stundum á ríkisrekstur við, í öðrum tilvikum á hann ekki við. Stofnanir í ríkiseign hafa ekki átt erfitt sem slíkar með að bregðast við á samkeppnismarkaði. Menn verða að finna orðum sínum stað áður en þeir slengja slíku fram. (ArnbS: Nefna dæmi.) Ég get nefnt fjölmörg dæmi.

Varðandi símgjöldin þá skulum við ekki reyna að drepa því á dreif sem ég sagði áðan, að áður en Póstur og sími var gerður að hlutafélagi í ársbyrjun 1996 voru símgjöld á Íslandi, þar með talið farsímagjöld, þau lægstu í heiminum og Síminn stóð í fremstu röð. Síðan væri fróðlegt að gera á því könnun. (Gripið fram í.) Þetta byggir á könnunum sem gerðar voru.

Ég held að það væri fróðlegt að láta gera slíkar kannanir að nýju (Forseti hringir.) þannig að við byggðum ekki málflutning okkar á getgátum heldur á staðreyndum.