132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:28]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fékk ekki mjög skýr svör varðandi arðgreiðslurnar. Ég held að þær hafi nefnilega verið þetta háar vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að taka út arð, 4 milljarða kr., á síðasta ári, en arðgreiðslurnar hafi ekki verið svo miklar áður. Það eru kannski 6 milljarðar kr. í allt.

En af því að hv. þingmaður nefndi strandsiglingar og að það væri ríkisstjórninni að kenna að strandsiglingar voru lagðar af þá held ég að strandsiglingar hafi lagst af vegna breytinga í þjóðfélagsgerðinni. Fólk vill fá vörurnar strax og það er fljótlegra að flytja þær með bílum en með skipum hringinn í kringum landið og það hlýtur að vera ódýrara. Þetta er hagkvæmari kostur og þess vegna hefur hann orðið ofan á en það er ekki þannig að ríkisstjórnin hafi ákveðið að strandsiglingar yrðu lagðar af.