132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:46]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands. Þann 6. september 2005 var kaupverðið greitt, 66,7 milljarðar, 66.700 millj. kr. Þar af voru greiddir 32 milljarðar í erlendri mynt, staðgreitt. Þeir peningar fóru til greiðslu á erlendum skuldum ríkissjóðs sama dag. Það gladdi hjarta mitt því að ég sé fyrir mér að vaxtagreiðslur ríkissjóðs muni lækka um alla framtíð og sú ráðstöfun hefur engin áhrif á innlent efnahagslíf.

Afgangurinn, 35 milljarðar kr., var staðgreiddur með íslenskum krónum sem voru lagðar inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þeir peningar, 35 milljarðar kr., voru þannig dregnir úr efnahagslífinu, frú forseti, og hafa annaðhvort verið teknir að láni, verið eigið fé viðkomandi fyrirtækja eða fluttir inn frá útlöndum. Í þessu tilfelli var því um að ræða aðgerð sem dregur verulega úr þenslu.

Síðan er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að 2,5 milljörðum kr. verði ráðstafað til ýmissa verkefna á þessu ári. Sú ráðstöfun fer í gang núna og gengur hægt og rólega og fer jafnvel yfir á næsta ár því að það tekst ekki að eyða peningunum fyrir áramót. Stærsti hlutinn af kaupverðinu er því dreginn út úr efnahagslífinu, það sem ekki fer til greiðslu á erlendum skuldum. Þetta er mjög gott og dregur stórlega úr þenslu enda verður afgangur á ríkissjóði sennilega 8–9% af landsframleiðslu á þessu ári, sem er með eindæmum eins og ég gat um fyrr í umræðunni. Ég efast um að nokkurt land sé með annan eins afgang.

Afganginn af peningunum, söluverðinu, á svo að nota til framkvæmda eftir 2007 og síðar, miklu síðar, þannig að þetta er mjög góð aðgerð til að draga úr þenslu.

Varðandi ráðstöfun fjárins þá er gert ráð fyrir að í vegaframkvæmdir fari 15 milljarðar kr., í spítala 18 milljarðar kr. og í minni liði 10 milljarðar kr., samtals 43 milljarðar kr. Afganginum, 24 milljörðum kr., verður varið til varanlegar lækkunar á skuldum ríkissjóðs.

Sumir hafa sagt að þeir sakni tiltekinna liða, að sjálfsögðu, eins og gengur, til aldraðra o.s.frv. Þar hafa menn aðallega nefnt aldraða. Ég sakna líka liðarins skattalækkunar. Ég hefði viljað sjá að skattgreiðendur, þ.e. borgarar þessa lands, hinn vinnandi maður, fengju hluta af þessu fjármagni til að ráðstafa í eigin þágu til sparnaðar eða til kaupa á hlutabréfum í Landssímanum. (ÖJ: Ekki veitir af þegar gullkýrin er tekin frá þeim.) Ekki veitir af þegar gullkýrin er tekin frá þeim, frú forseti. Ég hef margoft heyrt að menn hafi selt bestu kusuna í fjósinu. Ég held að það sé ekki þannig. Við erum að selja eina kusu og fá aðra miklu nythærri því að sú gamla mjólkaði ekki sérstaklega vel. Nýja kusan er niðurgreiðsla á erlendum skuldum. Það hefur verið íslenska ríkinu afskaplega þungbært að borga vexti, sérstaklega þegar vextir hafa verið hærri en þeir eru einmitt núna. Líklega kemur sú staða aftur upp á heimsmarkaði að vextir verði ekki svo óskaplega lágir.

Menn hafa rætt um einstakar framkvæmdir, t.d. 8 milljarða kr. í Sundabraut. Það er mjög jákvætt, finnst mér sem þingmanni Reykjavíkur. Svo hafa menn rætt um spítalann. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að það mætti skoða betur staðarvalið. Það er ekki þar með sagt að ég sé kominn í stjórnarandstöðu, frú forseti, eins og menn gjarnan vilja túlka það. Ég bendi einfaldlega á að hugsanlega megi finna betri lausn á staðarvalinu með tilliti til þess að Landspítalalóðin er ekki lengur í miðju Reykjavíkursvæðisins, heldur er hún eiginlega komin út úr. Hugsum okkur mann með hjartaáfall uppi Breiðholti, að það þarf að keyra hann alla leið vestur í bæ í gegnum þunga umferð. Þá væri betra að hafa Landspítalann nær miðju svæðisins. En að sjálfsögðu tekur maður afstöðu til slíks þegar staðarvalið er ákveðið. Það er líka neikvætt að byggja við hliðina á gömlum spítala því að þá er alltaf hugsanlegt að menn reyni að nýta eitthvað af gamla spítalanum, sem er ávallt slæmt.

Svo vil ég endilega leggja til, ef menn ætla að byggja nýjan spítala, að þeir flytji inn teikningar af spítala sem hefur verið teiknaður erlendis, t.d. norskum spítala, þannig að við gerum ekki sömu mistökin og með flugstöðina, að við verðum að hanna allt upp á nýtt og kannski ekki á bestan hátt. (ÖJ: Þetta er mjög markviss umræða.)

Varðandi aðra liði þá er það eina sem ég er ekki beint sáttur við þar framlag í Nýsköpunarsjóð. Ég hef enga trú á því og hef margoft sagt að opinberir starfsmenn geta ekki stundað nýsköpun, stutt hana eða staðið í fjárfestingu á nýsköpun. Mér sýnist reynslan hafa sýnt það. Nýsköpunarsjóður er illa settur.

Ég vil ekki ljúka ræðu minni án þess að lýsa því yfir ég er afskaplega ánægður með söluna sem slíka, að Landssíminn hafi verið seldur, sem hefur lengi verið draumur minn, og fyrir hann hafi fengist óskaplega hátt verð. Þetta er óskaplega hátt verð og miklu hærra en ég átti von á. Það nota menn síðan til að greiða niður skuldir og draga fjármagn út úr atvinnulífinu, það er mjög ánægjulegt. Nú er lítið orðið eftir að selja, frú forseti, nema kannski Landsvirkjun. (Gripið fram í: Póstinn.) Já, póstinn, en hann er ekki nándar nærri eins stór. En Landsvirkjun er eflaust næsta stofnun til að selja. Þá fer atvinnulífið að verða nokkuð lipurt fyrir utan það að menn fara kannski að hugleiða að flytja eitthvað af mennta- og heilbrigðiskerfinu yfir í einkaframkvæmd. Þá er ég ekki að tala um að ríkið hætti að greiða fyrir þá þjónustu heldur verði hún færð yfir í einkaframkvæmd þar sem meiri samkeppni ríkir þannig að verðið lækki, eins og sýnir sig t.d. hjá bönkunum.