132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um kjördæmapotara og nafngreindi ýmsa landsbyggðarþingmenn, þá sem væru þyngstir og frekastir. Nú vill svo til þegar maður horfir á þessi útgjöld þá er Sundabraut og Landspítalinn hvort tveggja í Reykjavíkurkjördæmi norður. Ég hef alltaf talið mig vera þingmann allrar Reykjavíkur og alls landsins reyndar og er á móti því að vera að skipta þessu niður á kjördæmi. Ég hef notað vegi um allt land og spítala og annað slíkt.

En nú vill svo til að hv. þingmaður er 1. þm. Reykv. n. Er hann þá ekki mesti potarinn? Er hann ekki að fá 26 milljarða af 60 í sitt kjördæmi, þ.e. 60% af allri upphæðinni og ekkert fer til Reykjavíkurkjördæmis suður?