132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:32]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna og fagna því að allgóð samstaða virðist um ráðstöfun þess fjármagns sem frumvarp þetta fjallar um. Ég fagna því einnig að almennt hafa menn lýst því yfir að sala Símans hafi tekist vel. Ég geri mér grein fyrir því að það var ágreiningur um það mál. Ýmsir aðilar á Alþingi vildu ekki selja Símann en aðrir á Alþingi vildu selja Símann með einhverjum allt öðrum hætti, þ.e. að aðskilja grunnnetið, sem var farið rækilega í gegnum og lá fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar að væri aðferð sem gengi ekki upp. Sú aðferð hefur ekki verið notuð í öðrum löndum þegar sambærileg sala hefur átt sér stað, svo einfalt er það mál. Þess í stað var farin sú leið að tryggja aðkomu samkeppnisaðila að grunnnetinu eins og gert hefur verið í öðrum löndum. Þetta hefur margoft verið rætt og ég ætla ekki að fara yfir það nú.

Niðurstaðan er sú að þessi sala hefur farið fram og að það hefur fengist gott verð fyrir Símann. Það verður til þess að við getum farið í ýmis mál sem við hefðum annars ekki getað sinnt. Það hefði verið fráleitt að ætla sér í þau verkefni með lántökum og taka t.d. lán erlendis við þær aðstæður sem eru í íslensku þjóðfélagi núna og á næstu árum og veita út í efnahagslífið. Salan átti sér þannig stað að 30 milljarðar kr. voru greiddir með erlendum gjaldeyri. Það fjármagn var ekki tekið hingað heim. 37 milljarðar kr. voru greiddir með innlendu fé. Kaupin eru að því leyti fjármögnuð innan lands. Sá hluti andvirðisins er þar með tekinn út úr íslensku efnahagslífi, kemur þaðan, eins fjármagn sem gengur til ríkisins, hvort sem það er með skattlagningu eða á annan hátt. Það væri því ekki sambærilegt að fara út í sömu framkvæmdir fyrir lánsfé. Ég undrast að að það skuli hafa verið rætt með þeim hætti sem gert var fyrr í dag. En nóg um það.

Það má að sjálfsögðu lengi deila um hvernig slíku fjármagni skuli ráðstafað og hvaða verkefni njóti þar forgangs. Ég verð að segja um ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, varðandi að hann sæi fingraför kjördæmapotsins um allt ... (ÖS: Og hófför líka.) Ég botna ekkert í þeim fundi hv. þingmanns og hvernig í ósköpunum hann fer að því að finna það út.

Ef við tökum vegaframkvæmdirnar fyrst þá liggur fyrir að það eru allt vegaframkvæmdir sem eru á áætlunum en höfðu ekki verið fjármagnaðar. Menn fóru þá einföldu leið að biðja Vegagerðina um lista yfir þær framkvæmdir á vegáætlun sem ekki hefðu verið fjármagnaðar og þær voru teknar inn. Þetta er nú allt kjördæmapotið.

Hv. þingmaður þóttist sjá för ýmissa þingmanna í þessu máli. Auðvitað eru för ýmissa þingmanna á þessu máli vegna þess að sem betur fer hafa hv. þingmenn á undanförnum árum rætt um öll þessi mál á Alþingi. Það hefur komið glöggt fram í máli margra alþingismanna hve mikilvægar framkvæmdirnar væru.

Þar má líka nefna Sundabrautina sem til er varið 8 milljörðum kr. sem nægir til að leggja þá braut upp í Grafarvog. Síðan er að sjálfsögðu mikilvægt að ljúka þeim vegi alla leið upp á Kjalarnes þannig að hann nýtist að fullu. Þar er gert ráð fyrir því að fara út í svokallaða einkaframkvæmd. Það liggur hins vegar ekki fyrir á þessari stundu hvernig farið verður í endurgreiðslu þess fjármagns. Það er einfaldlega í vinnslu. Hugsanlega verður það að einhverju leyti gert með veggjaldi. Það kemur vissulega til greina. Ég bendi á að veggjald vegna Hvalfjarðarganganna fer lækkandi og mun fara lækkandi á næstu árum. Það er vel hugsanlegt að fjármagna eftirstöðvar þeirra skulda á lengri tíma. Við skulum bara ganga til þess máls. En ég vænti þess að það verði ekki til þess að þingmenn Samfylkingarinnar leggist gegn málinu. Ég vænti þess að þingmenn Samfylkingarinnar séu sammála því að mikilvægt sé að sjá lagningu þess vegar til enda. Ég treysti því að um það sé hægt að ná góðri samstöðu. Hér hafa menn því ekki unnið sérstaklega með ákveðin kjördæmi í huga heldur mikilvægar framkvæmdir um allt land sem áður höfðu verið ræddar á Alþingi.

Síðan kemur spurningin um hvort einhverjir verði sérstaklega út undan í sambandi við ráðstöfun þessa fjármagns. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi sérstaklega eldri borgara í því sambandi. Reyndin er sú að við ráðstöfun þessa fjármagns eru aldurshópar ekki hafðir sérstaklega í huga. Það liggur alveg ljóst fyrir að sjúkrahús gagnast öllum landsmönnum hvort sem þeir eru yngri eða eldri. Ég tel ekki rétt að fara út í slíka skiptingu við ráðstöfun fjármagnsins. Unnið er að mörgum framkvæmdum sem tengjast eldri borgurum, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Hér kom fram að nýbúið er að gera samning um hjúkrunarheimili í Sogamýrinni þar sem eru 110 hjúkrunarrými. Áætlanir eru uppi um 90 hjúkrunarrými á svokallaðri Lýsislóð. Eins eru áætlanir um stækkun á Sóltúni. Það eru áætlanir uppi um hjúkrunarrými víða um land og í gangi hafa verið viðræður milli ríkisstjórnarinnar og Félags eldri borgara um þessi mál. Þau mál eru í eðlilegum farvegi.

Auðvitað komum við ekki til með að leysa öll mál með sölu þessa fyrirtækis en það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að með fjármagninu rýmkast um, hvort sem honum líkar það betur eða verr. Ég hlýt að endurtaka orð hans um að auðvitað rýmkast um í fjármálum ríkisins. Við getum ekki komið öllu að í þessu sambandi en það er ekki óeðlilegt að sérstaklega verði spurt um málefni eldri borgara eins og hann gerði, að spyrjast fyrir um hvort þeim verði ekki sinnt áfram með eðlilegum hætti. Ég fullyrði að svo verður.

Hins vegar er það rétt sem hann kom inn á, að málefni geðfatlaðra hafa mikla sérstöðu. Menn höfðu ekki séð fyrir endann á því að fjármagna það mál. Þess vegna þótti rétt að gera það með þessu frumvarpi og ég heyri að hv. þingmaður er því algjörlega sammála.

Síðan er gengið í önnur mál eins og nýsköpunina. Ég vænti þess að allir hv. þingmenn leggi áherslu á nýsköpun. (Gripið fram í: Ekki Pétur Blöndal.) Auðvitað leggur hv. þm. Pétur Blöndal líka áherslu á nýsköpun. Ég mótmæli því að honum séu gerðar upp slíkar skoðanir, að hann sé á móti nýsköpun. Hann vill ef til vill sinna því með öðrum hætti. Þarna er farin blönduð leið. Annars vegar fer hluti fjármagnsins til Nýsköpunarsjóðs en hinn hlutinn fer í sameiginlegan sjóð ríkisins og fjármálafyrirtækja sem unnið er að. Ef ég heyrði rétt þegar ég hlýddi á mál hv. þm. Péturs Blöndals þá lagði hann einmitt áherslu á að fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir, bankar og aðrir, komi að málinu. Að því er lagður grunnur með þessari ráðstöfun mála.

Ég hef heyrt það frá háttvirtri stjórnarandstöðu á undanförnum árum að núverandi ríkisstjórn legði allt of mikið upp úr svokallaðri stóriðju. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að banna ætti þá atvinnugrein, a.m.k. næstu tíu árin. Það er fáheyrt að slík tillaga hafi komið fram í heiminum. Með þessu hefði ég því haldið að það yrðu mikil fagnaðarlæti í stjórnarandstöðunni, að nú ætti að leggja meira upp úr öðrum atvinnugreinum, sem ríkisstjórnin hefur gert en aldrei lagt fram jafnviðamiklar áætlanir um að sinna nýsköpun í framtíðinni. Ég hef ekki heyrt betur á undanförnum árum en að allir leggi mikið upp úr því að setja fjármagn í að styrkja fjarskiptin.

Ef þetta er kjördæmapot, sem ég veit ekki alveg hvað þýðir, þá er það að því leyti rétt að hlustað hefur verið á raddir Alþingis við þessa tillögugerð. Á ekki að gera það, hv. þingmaður? Verðum við ekki að líta svo á að Alþingi endurspegli raddir landsmanna og áherslur fólksins í landinu? Hafi verið framin einhver stórkostleg afglöp eða allt að því mistök þá eru þau í því fólgin að hafa hlustað á þær raddir. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég held að aðalatriðið í þessu máli, þrátt fyrir alla forsöguna, sé að góð sátt virðist um þá ráðstöfun sem hér er lögð til. Einhverjir gætu hugsað sér að ráðstafa fjármagninu í önnur mál. Það kemur ekki á óvart. Hins vegar verður þetta ekki gert svo öllum líki og öll mál leyst. Ég held að það sé rangt að flokka ráðstöfunina eftir aldri eða landshlutum. Hér hefur verið farið í mál sem snerta þjóðina alla og menn hafa haft það að leiðarljósi. Ég vænti þess að þingheimur allur geti sameinast um frumvarpið þegar upp verður staðið.