132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri á hv. þingmanni að honum finnst mjög slæmt að það sem ríkisstjórnin gerir skuli falla almenningi í geð. Ég skil vel að hv. þingmanni líði illa yfir því að eitthvað skuli heppnast hjá ríkisstjórninni. Ég heyrði það á hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það var allt annar málflutningur hjá honum. Hann á það þó til að hrósa því sem vel er gert þó að hann sé andstæðingur ríkisstjórnarinnar. Ég heyri það á hv. þingmanni að hann virðist ekki einu sinni geta glaðst yfir því að við getum núna ráðist í að byggja upp sjúkrahús fyrir alla landsmenn sem ekki hefði verið hægt með þessum hætti ef Síminn hefði ekki verið seldur og farið eftir því sem Vinstri grænir vilja.