132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:52]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði gaman af því og mér fannst skondið þegar hæstv. ráðherra sagði að í tilteknu efni sem hann ræddi hér sérstaklega hefði verið hlustað á Alþingi og hvort ekki ætti að fara eftir því sem Alþingi segði. Það er reynsla mín af þessari ríkisstjórn að aldrei fyrr hefur drottnun framkvæmdarvaldsins yfir löggjafarvaldinu verið jafnmikil og einmitt á þessum síðustu árum. Ég nefni ekki hrikalegustu dæmin en ég gæti nefnt eitt sem ég ætla að ræða við hæstv. ráðherra á morgun.

Það sem mér þykir þó merkilegast í máli hæstv. ráðherra er að hann lýsti því yfir að til skoðunar væri að taka upp veggjald til þess að fjármagna seinni áfanga Sundabrautar. Það sem hæstv. ráðherra sagði um möguleika á því að lengja lán vegna Hvalfjarðarganganna skaut auðvitað stoðum undir það. Mér finnst mikilvægt að það komi fram að Framsóknarflokkurinn er að velta því fyrir sér og reyndar ríkisstjórnin að leggja sérstakan toll á þá sem munu notfæra sér þessa framkvæmd í framtíðinni. Ég held að það sé mikilvægt innlegg í málið og ég verð að upplýsa hæstv. forsætisráðherra um að ég hef miklar efasemdir um það.

Síðan varpaði ég spurningu til hæstv. forsætisráðherra um aldraða og þakka honum fyrir að hafa svarað því skilmerkilega. Svar hans var eftirfarandi: Það er sjálfsagt að flýta vegum sem allir voru á áætlun en þó að það sé líka á áætlun að reisa hjúkrunarheimili fyrir aldraða þá gegnir allt öðru máli um það. Það er þess vegna sem ég leyfi mér að draga þá ályktun, af því að ég veit að hv. stjórnarþingmenn eru ekkert illa gerðir, þeim er ekkert illa við aldraða, að þeir hafa gleymt öldruðum í þessu dæmi. Það er þess vegna sem ég varpaði þeirri fyrirspurn til hans: Kemur til mála að breyta þessu frumvarpi með það fyrir augum að taka sérstaklega á þessum málum? Svarið er nei.