132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[20:54]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni er alveg einstaklega lagið að leggja öðrum orð í munn og fara vitlaust með. Ég sagði ekkert um að ekki ætti að sinna málefnum aldraða. Ég var einmitt að tala um að áætlanir væru um það og það er verið að vinna í þeim málum. Ég sagði líka að ekki væri hægt að reikna með að öll mál sem uppi væru yrðu leyst með þessu máli. Þetta var sérstaklega rætt, hv. þingmaður. Þetta var ekki gleymt. Það var farið yfir það. Menn töldu hins vegar á vettvangi félags- og velferðarmála að eitt mál stæði sérstaklega upp úr og það væri málefni geðfatlaðra. Það var ákveðið að taka það hér inn.

Við gerðum okkur hins vegar grein fyrir að það væri ekki ólíklegt að málefni aldraðra kæmu sérstaklega til umræðu eða hugsanlega málefni námsmanna, stúdentagarðar og ýmislegt annað. Það var farið yfir þetta hv. þingmaður. Ég vildi bara að það lægi fyrir. Þetta varð niðurstaðan og ég heyri að hv. þingmanni finnst hún allgóð en auðvitað er eðlilegt að hann nefni ýmsa aðra málaflokka í þessu sambandi.

Að því er varðar hugsanlegt veggjald þá skulum við fara yfir það en við skulum ekki leggja orð í munn manna út af því. Það er einfaldlega ekki komin niðurstaða í það en menn verða að hafa úthald í að fara í gegnum þá umræðu.