132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[21:01]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Forseti. Ég tel að það þurfi ekki að útskýra þetta sérstaklega. Mér finnst þetta skýra sig sjálft. Farið var að ráðgjöf þeirra sem komu að þessu máli og mér fannst þetta ágæt ákvörðun.

Út af þessu með vegtollinn þá finnst mér stórkostlegt að hlusta á málflutning Samfylkingarinnar í skattamálum síðustu daga. Fyrir nokkrum dögum heyrði ég tillögu frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að lækka gjöld á bensín og olíu. Svo heyrði ég í fréttum nýlega tillögu frá Samfylkingunni um að hætt yrði við allar skattalækkanir. Nú er nefnt veggjald sem hugsanlegt úrræði í stað þess að hækka skattlagningu á eldsneyti og þá er það líka ómögulegt.

Hver er eiginlega stefna þessa flokks í skattamálum? (Gripið fram í: Að lækka matarskattinn.) Það er ótrúlegt að hlusta á þennan málflutning. Svo koma fulltrúar hans og segja að það sé ekkert aðhald í fjárlögunum, að auka verði aðhaldið í fjárlögunum um 14 milljarða. Það var einn daginn. Ég verð að segja eins og er við hv. þingmenn Samfylkingarinnar, að maður er alveg hættur að skilja hvert þeir eru að fara.

Það voru gerð göng undir Hvalfjörð. Það var leyst með veggjaldi. Var það rangt? Kemur þá aldrei aftur til álita að hugleiða þá aðferð eða fara yfir það? (ÖS: Það þarf þá að liggja fyrir.) Liggja fyrir, nú liggur aðallega fyrir tillöguflutningur frá Samfylkingunni um að skoða hitt og þetta, Evrópusambandið, evruna og skoða (Forseti hringir.) hlutina út og suður. Ég er frekar fylgjandi því að skoðað hlutina áður en menn taki ákvarðanir.